Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

orð þingmanns í hliðarsal.

[20:00]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að kveðja mér hljóðs aftur en svo kom hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir með svo rosalega góðan punkt um að það sé bara mjög mikilvægt að eiga samtal um þá löggjöf sem er að fara í gegnum þingið af því að þetta er jú hluti af lýðræðinu. Við erum auðvitað með með beina útsendingu hér af fundum Alþingis og ég vil meina að það sé mjög mikil bót þegar kemur að gagnsæi og upplýsingaflæði til almennings. En hins vegar finnst mér svolítið skrýtin sú menning sem ég uppgötvaði þegar ég tók fyrst sæti á þingi að tala ekki í þingmálum eða tala ekki í málum sem eru hér til umræðu inni á Alþingi oftar en ekki og að meiri hluti þingmanna, stjórnarþingmenn, sé ekki í þingsal þegar mál eru til umræðu, af því að það er jú hlutverk okkar allra að sjá til þess að lögin séu samrýmanleg öðrum lögum og þess háttar og að allt renni vel og fallega hér í gegn.