Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta rifjast allt upp fyrir manni þegar maður skoðar gömlu umsagnirnar. Samband íslenskra sveitarfélaga gerði t.d. athugasemd við það að fjárhæð samninga sé talin lækka fram til ársins 2022 samhliða meintri hagræðingu. Því var það byggt inn í þetta kerfi að peningurinn sem var vanáætlaður yrði alltaf „vanáætlaðari“, þetta yrði alltaf þrengri og þrengri staða fyrir sveitarfélögin vegna þess að fjármálaráðherra hefur væntanlega komið blessuðu föstu hagræðingarkröfunni sinni inn í módelið sem er náttúrulega einhver ofsatrú hægri manna sem skilja ekki hvernig velferðarsamfélag virkar.

En vegna þess að hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann mætti ekki fara fram úr fjárheimildum og þess vegna þyrfti upphæðin að ráða en ekki fjöldi samninga þá var hér nefnd niðurgreiðsla á nýsköpunarverkefnum og ýmsir fjárlagaliðir sem bólgna út eftir því sem eftirspurnin er meiri. Hv. þingmaður sat í sveitarstjórn hér áður fyrr. Hvernig væri það t.d. ef sveitarfélag fengi allt í einu miklu fleiri börn á grunnskólaaldri en gert var ráð fyrir? (Forseti hringir.) Gæti sveitarfélagið sagt: Því miður er peningurinn er búinn, þessi 20 börn þurfa bara að vera úti? (Forseti hringir.) Er ekki málið einmitt að það að bíða með réttlæti er að neita um réttlæti?