Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ungmennasamtökin Samfés hafa vakið athygli okkar þingmanna á því að meiri hlutinn í Reykjavíkurborg ætli nú að stytta opnunartíma félagsmiðstöðva. Þetta sé í hróplegu ósamræmi við yfirlýst markmið meiri hlutans um betri borg fyrir börn og grátlegt á sama tíma og allar viðvörunarbjöllur eru í gangi varðandi hegðun og líðan ungmenna. Samtökin óska hreinlega eftir aðkomu löggjafans að þessum málaflokki. Árum saman, ekki mánuðum heldur árum saman, tóku stjórnvöld hér þá ákvörðun að leggja mjög þungar byrðar á börn og ungmenni til að vernda aðra en þau sjálf í heimsfaraldri. Á þeim tíma horfðum við m.a. upp á gríðarlega fjölgun á tilkynningum til barnaverndaryfirvalda um ofbeldi og vanrækslu á börnum. Að mínu mati höfum við ekki enn horfst almennilega í augu við afleiðingar þessara ákvarðana en við hljótum samt öll að vera meðvituð um viðkvæma stöðu þessa hóps í dag. Þeir sem bera ábyrgð á þjónustu við börn ættu að taka það hlutverk sitt mjög alvarlega. Ég er farin að venjast því að taka á móti erindum varðandi aðkomu ríkisins og löggjafans að málaflokkum sem meiri hlutinn í Reykjavíkurborg hefur ekki sinnt nógu vel. Ég treysti félögum mínum í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins auðvitað vel til að halda meiri hlutanum við efnið og veit að þau hafa mótmælt harðlega niðurskurðaráformum sem snúa að félagsstarfi barna og unglinga og lagt til aðrar niðurskurðaráherslur. Mér rennur samt blóðið til skyldunnar að taka hér t.d. upp leikskólamálin og tel það ekki eftir mér að bæta þessu á listann. Þeir sem auglýsa betri borg fyrir börn ættu að standa við það loforð, ekki verri heldur betri borg fyrir börn.