Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

orð þingmanns í störfum þingsins.

[14:18]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða sem við eigum hérna og afhjúpandi að mörgu leyti. Ef ég skildi þetta rétt þá var verið að gagnrýna fjölmiðlamann fyrir ummæli sem komu fram hjá viðmælanda hans í sjónvarpsþætti. Ég ætla að byrja á að taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og segja: Já, við erum reiðubúin að ganga býsna langt til þess að verja listrænt frelsi. Það sem mig langar til að spyrja hv. þm. Ásmund Friðriksson og þá sem eru honum sammála hér er: Hvað eruð þið að leggja til? Hvað nákvæmlega erum við að tala um? Ef það þarf að stöðva þessa listrænu túlkun sem á sér stað, sem felur í sér — já, ég ætla að segja mjög harða gagnrýni á ríkisstjórnina, gagnrýni sem ég tel svo sem að enginn í þessum sal sé vafa um afstöðu mína gagnvart — mig langar bara til að spyrja, varpa þessari spurningu fram: Hvað er það sem þið eruð að leggja til? Hvað viljið þið gera til að stöðva þessa hræðilegu listrænu túlkun? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)