Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

orð þingmanns í störfum þingsins.

[14:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta snýst nefnilega um stóru myndina. Stóru myndina um tjáningarfrelsið. Hluti af tjáningarfrelsi er listrænt frelsi fólks, hvort sem það er dagskrárgerðarfólk, fólk í listageiranum, fólk sem vinnur að rannsóknum og vísindum innan háskólanna. Það er stóra myndin sem við erum að verja. Hver er þá tilgangurinn með því að koma hingað upp og hreyta ónotum í einhverja tiltekna einstaklinga? Er það til að skora heima fyrir eða til þess að skora einhver stig innan flokksins? Hver er tilgangurinn með þessu? Ég velti fyrir mér, af því að ríkisstjórnin hefur tögl og hagldir þegar kemur að fjármálum m.a. Ríkisútvarpsins: Er þetta til þess að ógna? Er þetta til þess að senda gula spjaldið? Passið ykkur, ef þið talið ekki varlega um mig og mína þá hafið þið verra af? Ég vil taka undir þá spurningu sem var borin hér upp áðan: Hver er tilgangurinn með þessu? Hver er ætlunin önnur en sú að reyna að þagga niður í fólki? (Forseti hringir.) Þar set ég fótinn niður. Tjáningarfrelsið verður varið með ráðum og dáð meðan Viðreisn er í þessum sal.