Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og samstarfið. Varðandi það hversu seint gögnin koma fram þá er það liður í því hversu seint hagspáin kemur fram, eins og ég nefndi áðan. Það urðu talsvert miklar breytingar, sérstaklega á tekjuhliðinni, og þau segja okkur að kerfið sé þungt. Ég er hins vegar ósammála því að þetta þurfi að gerast svona seint. Eins og ég rakti líka áðan er ég ósammála þeirri nálgun að við séum með svona miklar breytingar á milli umræðna. Ég tel að stefnumörkunin sem þarf að eiga sér stað innan ráðuneytanna, heimildirnar og annað slíkt, að þetta eigi að vera mun betra þannig að við þurfum ekki að fá svona mikið á milli umræðna.

Varðandi frítekjumarkið: Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra tók við fyrir ári síðan, tæplega meira að segja, og hann taldi sig þurfa þennan tíma í þá vinnu sem hann hefur unnið með fólki sem að þessu kemur til að fá yfirsýn yfir það hvernig hann gæti lagt fram og hvað, í hvers lags áföngum. Þetta er partur af því sem hann er að gera núna og við skulum bara fagna því.

Varðandi heilbrigðisþjónustuna þá held ég að við séum að gera þokkalega vel. Ég held að við séum að gera það. Við erum með gott heilbrigðiskerfi og gott starfsfólk. Við erum einmitt að leggja fé til að endurheimta starfsfólk, ef svo má að orði komast, þar sem er verið að reyna að koma til móts við það gríðarlega álag sem hrjáð hefur starfsfólkið. Ég held að við séum að gera vel í heilbrigðismálunum. (Forseti hringir.) Það er alltaf hægt að gera betur en við þurfum líka, það er okkar hlutverk, að hafa eftirlit með því hvernig það er gert.