Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er formanni fjárlaganefndar einlæglega sammála um það að íslenskt lágvaxtaskeið getur aldrei orðið annað en stuttmynd þegar íslenska krónan leikur aðalhlutverkið. En ég held að það sé augljóst mál að þetta högg vaxtahækkana hittir unga fólkið fastar fyrir. Það er fólk sem er líklegra til að hafa farið inn í þetta umhverfi og það þarf að horfa til þess að hér er sennilega um ungt fjölskyldufólk að ræða, barnafólk. Auðvitað vekur það athygli, ekki síst eftir stór orð hæstv. innviðaráðherra, að hér ríkir algjör þögn um húsnæðismálin, um stofnframlög, um vaxtabætur sem hv. þingmaður nefnir, húsnæðisbætur o.s.frv. Í tengslum við þetta langaði mig líka til að spyrja út í það að heimilin eru mörg að upplifa það mjög harkalega núna hvað það kostar að skulda. Stundum tala stjórnmálamenn og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar eins og skuldir skipti ekki máli og að það kosti ekki að skulda. Nú fór hallinn frá 90 milljörðum upp í 118 í haust og við sjáum hver veruleiki vaxtagjaldanna er, hann er svimandi hár. Það veikir getu ríkisins til að fjárfesta í heilbrigðiskerfinu, til að fjárfesta í innviðum. Hefur formaður nefndarinnar áhyggjur af því hversu hægt á að fara í það að greiða niður skuldir? Fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eru, að mér skilst, að reka ríkissjóð með halla til ársins 2027. Blasir það ekki við að þetta veikir getu ríkisins til þess að fjárfesta í þáttum eins og heilbrigðisþjónustu sem öll þjóðin er einhuga um að vilja gera vel í?