Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir nefndarálit 1. minni hluta í hv. fjárlaganefnd. Eins og ég sagði hér áðan, í andsvörum við formann hv. nefndar, þá hefur þetta verið áhugaverð vinna núna í vetur og svolítið einkennt okkar verklag hversu lengi við höfum verið að bíða eftir ákveðnum þáttum. En ég ætla nú ekki að fara í gegnum þetta allt saman heldur taka fyrir einstaka málaflokka þegar líður á álitið. Ég held að það sé þess vert að spyrja sig þeirrar spurningar, virðulegi forseti, hvert ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er að stefna og hvort íslenskt samfélag standi betur en það stóð fyrir fimm árum þegar þessi ríkisstjórn tók við, af því að við sem viljum stjórna í þágu almennings viljum auðvitað sjá framfarir. Í staðinn verðum við vitni að stjórnun sem festir kerfin okkar enn frekar í hjólförunum. Þetta er stjórnun sem felur fyrst og fremst í sér að neyð er sköpuð til þess eins að geta hlaupið inn líkt og bjargvættur núna rétt fyrir jól og stoppa í götin. Svona á ekki að stjórna landi. Með þessum stjórnarháttum komumst við einfaldlega ekkert áfram. Þetta á við um stöðu margra málaflokka, m.a. stöðu öryrkja og eldri borgara, heilbrigðiskerfisins, öldrunarþjónustu og löggæslunnar víða um land, svo dæmi séu tekin. En þetta, virðulegi forseti, er því miður niðurstaðan þegar ríkisstjórn er mynduð um stöðugleika flokkabandalags í staðinn fyrir stöðugleika og framfarir í þágu almennings. Það er auðvitað eitt að gera málamiðlanir, það er annað þegar ríkisstjórn er stýrt af flokki með um fimmtungsfylgi á bak við sig með stjórnmálastefnu sem minni hluti þjóðarinnar styður. Ef við lítum nefnilega yfir flokksflóruna á Íslandi mætti í ákveðinni einfeldni segja að um 30% þjóðarinnar, eða þriðjungur, styðji svokallaða hægri stefnu í efnahagsmálum og velferðarmálum og 70% þjóðarinnar liggi frá miðju til vinstri. Það er meiri hluti fyrir umbótum í velferðarkerfinu, fyrir sanngjarnri skattheimtu. Þetta má sjá bæði á því hvernig atkvæði falla flokkanna á milli en einnig af samtölum við fólkið í landinu. En þetta ægivald stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem hefur þó upplifað umfangsmikið fylgistap, heldur stjórn landsins í andstöðu við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Þessari stöðu vill Samfylkingin – Jafnaðarflokkur Íslands, breyta. Við í Samfylkingunni viljum fylkja fólki á bak við breiðu velferðarlínurnar sem samstaða er um á meðal þjóðar, þar sem stór hluti landsmanna liggur.

Slíka forystu vantar því miður tilfinnanlega í núverandi ríkisstjórn og til þess að fara eitthvað fram á veginn og fá slíka forystu fram þarf að losa um neitunarvaldið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, neitunarvaldið sem m.a. birtist svo skýrt og hafði áhrif á allt verklagið í frumvarpinu sem hér er til umræðu. Stærsta einstaka mál ríkisstjórnar hvers þingvetrar, fjárlagafrumvarpið, var nefnilega enn óskrifað blað þar til fyrir nokkrum dögum, þrátt fyrir að lög um opinber fjármál séu mjög skýr um að fjárlagafrumvarpið sem birtist þingi og þjóð í 1. umr. er og á að vera endanlegar pólitískar áherslur og tillögur ríkisstjórnarinnar. Síðan tekur þingið við og leggur fram breytingartillögu. Málið á að fá þinglega meðferð en nú er svo komið í þessari ríkisstjórn að ákvörðunarfælnin og reiptogið milli stjórnarflokkanna er orðið svo mikið að stórir hlutar frumvarpsins fóru einfaldlega ókláraðir inn í þingið og þau skilaboð bárust fjárlaganefnd, þingi og þjóð að ríkisstjórnin, eða fjármálaráðuneytið sérstaklega, myndi bæta við eftir eigin hentisemi þegar liði á haustið.

Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. hljóða upp á 50 milljarða kr. Þær eru fyrst og fremst fengnar frá fjármálaráðuneytinu og hæstv. ríkisstjórn, þær eru ekki mótaðar af þinginu, ríkisstjórnarræðið eða fjármálaráðherraræðið öllu heldur er nefnilega að verða algjört. Þetta er, virðulegur forseti, auðvitað mjög taktísk afgreiðsla hjá ríkisstjórninni. Í fyrsta lagi er það taktík gagnvart minni hlutanum að mæta með óklárað skjal og geta því vitnað ítrekað til þess að meira sé á leiðinni, óvíst í raun hvað. Allri gagnrýni meðan á vinnuferli hv. fjárlaganefndar og þings stendur er því svarað með: Bíðið bara. Við munum bregðast við, peningurinn er í óskilgreindum almennum varasjóði. Þetta er þarna allt saman.

Hæstv. ríkisstjórnin getur einfaldlega ekki komið sér saman um úthlutun, um grundvallarforgangsröðun, um stefnu. Þá hefur umrætt vinnulag ríkisstjórnarinnar svipuð áhrif á hagsmunaaðila sem skila umsögnum um frumvarpið af því að umsagnaraðilar eru í raun að bregðast við ókláraðri vinnu. Hæstv. ríkisstjórn grípur því ítrekað til þess ráðs að kæfa þá gagnrýni einnig á þeim nótum að hún hafi nú ekki sagt sitt síðasta. Og við erum enn þá, þrátt fyrir að vera komin hér inn í 2. umr. og þennan sal með 50 milljarða kr. breytingartillögu, að bíða eftir tillögum frá ríkisstjórninni sem gætu komið inn í 3. umr. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti.

Það sem er verst við þetta vinnulag er að þetta er ódýr afgreiðsla gagnvart íslenskum almenningi því að þetta stjórnareðli er til þess fallið að halda fólki sífellt á tánum eða í raun á hnjánum gagnvart örlæti ríkisstjórnarinnar. Pólitískar aðgerðir og stefna ríkisstjórnarinnar er hætt að snúast um langtímasýn sem er mótuð og fullfjármögnuð í fjármálaáætlun, áætlun sem á að veita von um úrlausn á stórum samfélagslegum vandamálum; í almannatryggingum, húsnæðismálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum o.s.frv. Nú snýst þetta um að skapa neyð, helst sem mesta, með ókláruðu og óskrifuðu fjárlagafrumvarpi, fá heilbrigðisstofnanir, öryrkja og nú síðast löggæsluna og fangelsin í landinu í örvæntingu fram og mæta svo með jólagjöf við 2. umr., 60.000 kr. eingreiðslu fyrir tekjulægsta fólkið í landinu því að örorkukerfið er brotið. 12 milljarða kr. viðbótarframlag til heilbrigðismála sem kemur í veg fyrir stórfelldan niðurskurð á grunnrekstri en er stillt upp sem stórsókn í fjölmiðlum. Einn milljarður til að koma í veg fyrir uppsagnir hjá lögreglunni eftir allt sem á undan er gengið í haust. Allt er þetta neyð sköpuð af sama fólkinu og mætir nú í fjölmiðla með gjafagjörning.

Virðulegi forseti. Stefnuleysið er algjört og pólitíkin snýst nú orðið um einhvers konar hrossakaup rétt fyrir hátíðarnar. Ekki nema von að við komumst ekkert áfram, ekki nema von að kerfislægur vöxtur í stóru velferðarkerfi okkar haldi áfram að vinda upp á sig, að kulnun aukist sem og vonleysi. Fólk á nú að vera þakklátt fyrir örlæti ríkisstjórnarinnar rétt fyrir jól. Öllu hefur einhvern veginn verið snúið á hvolf. Stjórnmálin eiga að snúast um að þjónusta almenning en sambandið milli þings og þjóðar, ríkisstjórnar og þjóðar, hefur breyst í örvæntingarfullt samtal um neyðarfjármögnun hverju sinni. Það kemur tímabundinn léttir, en hvað svo?

Virðulegi forseti. Núverandi stjórnarfar hefur því miður orðið til þess að almenningur er orðinn hálf dofinn fyrir stjórnmálum okkar tíma. Fólk upplifir að það skipti engu máli hvað er kosið og er hætt að kippa sér upp við svikin loforð. Þau skilaboð sem berast frá stjórnarliðum, um að verið sé að vinna í stóru málaflokkunum okkar, að raunverulegar breytingar hafi átt sér stað eða jafnvel að ekkert sé hægt að gera í ákveðnum hlutum, eru mjög hættuleg því að þau skapa þá tilfinningu meðal fólksins í landinu að við sem samfélag getum einfaldlega ekki leyst samfélagsleg verkefni í sameiningu og með þessu er alið á uppgjöf. Það er alið á einstaklingshyggjunni, að allir eigi bara að sjá um sig sjálfir. Markmiðið verður að grafa undan tekjustofnum ríkissjóðs, lækka skatta svo að fólk geti greitt sig sjálft út úr vandanum, keypt sig fram fyrir röðina. Og hér er ekkert um ýkjur að ræða. Á síðasta kjörtímabili réðst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur í skattbreytingar sem lækkuðu tekjur ríkissjóðs um 42 milljarða kr. ár hvert. Um er að ræða 42 milljarða kr. sem ekki nýtast í uppbyggingu og styrkingu á velferðarkerfunum, fjármagn sem var greitt út, ekki innheimt og undir þetta kvittar félagshyggjuflokkur sem fylgir nú forgangsröðun hægri flokks um að veikja grunnþjónustuna, ýta undir einstaklingshyggjuna. Ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á því að þegar velferðarkerfið okkar var byggt upp, á sjöunda áratug síðustu aldar, var megintilgangurinn að tryggja aðgang að grunngæðum samfélagsins með aðkomu opinberrar þjónustu. Grunnþjónusta skyldi veitt óháð efnahag og þú áttir ekki að geta keypt þig fram fyrir kerfið. Í svona kerfi bætir ríkisstjórnin ekki stöðuna með því að veikja tekjugrunn kerfanna með skattalækkun því að hver og einn einstaklingur á ekki að geta keypt sig inn í það.

Virðulegi forseti. Lífskjör fólks í velferðarríki ráðast af svo miklu fleiri hlutum en launatekjum eftir skatt. Þau ráðast af kostnaði við grunnþjónustu, húsnæði, gæðum opinberrar þjónustu og eftir atvikum réttindum fólks til bóta og með því að veikja þennan grunn lífskjara hefur ríkisstjórnin kynt undir óánægju á vinnumarkaði og ólgu sem birtist okkur núna daglega. Traustið til stjórnmálanna hefur dvínað það mikið að verkalýðshreyfingin og almennir launþegar reyna sitt besta við að sækja sem mest af lífskjarabatanum í launakröfur til atvinnurekenda, því að velferðargrunnurinn er orðinn of veikur til að styðja við framfarir í lífskjörum að öðru leyti. Þessi staða er á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar.

Ef við tökum fyrir stærri málaflokka og setjum það í ákveðið samhengi þá held ég að heilbrigðiskerfið hafi verið mikið til umræðu á flestum stöðum í íslensku samfélagi þetta haustið. Það auðvitað litar svolítið umræðuna um fjárlögin farandi inn í haustið hvers konar viðbrögð koma frá hæstv. ríkisstjórn í ljósi þessa. Við sáum mjög alvarlega umræðu um stöðu mála í heilbrigðiskerfinu. Það voru fjöldauppsagnir sem áttu sér stað í heilbrigðiskerfinu vegna álags þvert á heilbrigðisstéttir en inn í þetta landslag mætti ríkisstjórnin með fjárlagafrumvarp sem fól í sér að raunvexti Landspítalans var ekki mætt. Nauðsynlegri fjárveitingu til þess eins að halda í við fólksfjölgun og hjúkrunarþyngd og öldrun var ekki mætt. Lyfjakostnaði var ekki mætt og Landspítalinn boðaði í haust niðurskurð að öðru óbreyttu. Sjúkrahúsið á Akureyri lýsti því yfir við fjárlaganefnd að rekstrargrunnur spítalans væri brostinn ef ekki bærist 500 millj. kr. viðbótarframlag og heilbrigðisstofnanir úti um allt land lýstu því yfir að launakostnaði undanfarinna ára, sem ríkið ber sjálft ábyrgð á vegna eigin kjarasamninga, hefði ekki verið mætt að undanförnu og því stefndi í niðurskurð.

Ofan í þessa umræðu mætir hæstv. heilbrigðisráðherra, í takt við hæstv. fjármálaráðherra sem virðist vera æðsti maður hæstv. ríkisstjórnar, og lýsir því yfir að fjármögnun sé ekki vandinn í heilbrigðiskerfinu. Vonleysið sem heilbrigðisstarfsfólk lýsi sé einfaldlega ekki til staðar og gefur síðan lítið fyrir tölfræði um að fjárframlög til íslenska heilbrigðiskerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu séu mun lægri en í nágrannalöndunum okkar þrátt fyrir að við séum hér færri og rekum þar með óhagkvæmari einingar. Á þessa gagnrýni er einfaldlega lokað. Við bættust síðan umsagnir frá Sjúkraliðafélaginu og hjúkrunarheimilunum um vanfjármögnun í þjónustu sem styður við heilbrigðiskerfið, öldrunarþjónustuna. Við sjáum núna slæm kjör fagstétta sem starfa á hjúkrunarheimilum. Þau hafa orðið til þess að um 85% sem starfa á slíkum heimilum hafa ekki tilskilda fagmenntun. Fjármagn er einfaldlega ekki til staðar, virðulegi forseti, til að borga fyrir menntað starfsfólk og þar sem fjármagnið er til staðar lætur fólk ekki bjóða sér þau kjör sem þar bjóðast út af álagi. Skortur á fjármagni og yfirsýn á þessum stað í keðjunni, í öldrunarþjónustu, hefur orðið til þess að legurýmum fjölgar ekki sem skyldi fyrir utan spítalana og háskólasjúkrahúsið okkar er rekið að hluta til sem hjúkrunarheimili. 110 manns liggja nú á Landspítalanum sem ættu að vera á hjúkrunarheimili. Fullnýting er þess vegna á legurýmum sem hamlar aðgerðum á spítalanum. Þessi staða heldur síðan aftur af afköstum á spítalanum sem nú stefnir afkastatengdri fjármögnun spítalans í hættu og ýtir síðan enn frekar undir ósanngjarna orðræðu gagnvart starfsfólki spítalans um að framleiðni þess sé ekki nægjanleg þegar staðreyndin er sú að stjórnvöld halda aftur af möguleikum fólks til að sinna starfi sínu eftir bestu getu. Það kemst einfaldlega ekki í verkefnið sem það er þjálfað fyrir vegna kerfislægra vandamála.

Hvað gerist í kjölfarið, virðulegur forseti? Jú, óánægja fólks í starfi eykst og álag. Fólk leitar yfirleitt til einkarekinna stofa þar sem bráðaþjónusta og legurými eru ekki partur af starfslýsingunni. Vítahringur hefst þar sem flótti af opinberum heilbrigðisstofnunum þýðir að starfsfólki sem þarf að sinna bráðaþjónustu á opinberum sjúkrahúsum fækkar og um leið dregur úr þjónustu sem er ekki veitt neins staðar annars staðar. Gripið er til álagsgreiðslna, vaktaálags, aukafrís, eingreiðslna, allt gert til að halda í fólk. Á sama tíma hafa heilbrigðisstofnanir fyrir utan höfuðborgarsvæðið ekki fjárhagslegt svigrúm til slíkra greiðslna sem svo sogar starfsfólk af landsbyggðinni í bæinn og veikir þjónustuna enn frekar. Veikari þjónusta í landsbyggðunum leiðir svo til þess að fólki er vísað á höfuðborgarsvæðið og álagshringurinn þrengist og þrengist. Yfirsýn stjórnvalda virðist engin, verulega takmörkuð, og vítahringurinn verður ekki rofinn með jólagjafagreiðslum hæstv. heilbrigðisráðherra við 2. umr. þar sem mætt er með fjármagn sem hefði átt að koma strax inn í fjárlagafrumvarpið í haust, fjármagn sem kemur í veg fyrir stórfelldan niðurskurð en færir okkur ekkert áfram. Fólkið sem starfar í heilbrigðis- og öldrunargeiranum á meira og betra skilið en að láta spila svona með sig.

Virðulegur forseti. Nýlegt dæmi um stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og skort á yfirsýn í heilbrigðismálum er samningsleysi sjúkraþjálfara og sérfræðilækna í landinu. Komugjöld og greiðslur fyrir aðgerðir hafa hækkað umtalsvert og fellur sá kostnaður núna beint á einstaklinga sem þurfa á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og þjálfun að halda. Öryrkjabandalagið hefur bent á að hingað til hafi almenningur greitt nærri 2 milljarða kr. úr eigin vasa vegna þessa samningsleysis og blasir nú við að kostnaður almennings verði enn meiri á næstu misserum vegna áframhaldandi kostnaðarhækkana og samningsleysis. Eðli málsins samkvæmt fellur þessi kostnaður langþyngst á viðkvæmustu hópana í okkar samfélagi. Tvöfalt heilbrigðiskerfi hefur því myndast á vakt þessarar ríkisstjórnar. Ekkert fjármagn er veitt sérstaklega til að semja við sérfræðilækna núna í þessum 12 milljarða breytingartillögum sem koma inn og vekur þar athygli nýleg uppsögn forstjóra Sjúkratrygginga sem lýsti því yfir í fréttum að hún væri að segja upp á þeim forsendum að hún taldi sig ekki geta uppfyllt lögbundnar skyldur stofnunarinnar vegna vanfjármögnunar. Þetta er þetta vonleysi sem ítrekað er vitnað til meðal heilbrigðisstarfsfólks og hæstv. heilbrigðisráðherra virðist ekki vilja viðurkenna að það sé engin lausn í sjónmáli. Það er ekki einu sinni verið að fjármagna þessa samninga á næsta ári.

Virðulegi forseti. Mig langar til að fjalla líka aðeins um réttaröryggi í landinu, sérstaklega í ljósi þess að dómsmálaráðuneytið mætti til fjárlaganefndar strax við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í haust og benti á alvarlega vanfjármögnun sem til staðar væri. Það varð ljóst strax í haust að að öðru óbreyttu stefndi í uppsagnir um áramótin í löggæslunni, sem væri nú þegar undirmönnuð, og til viðbótar væri komin upp verulega hættuleg staða í fangelsum landsins þar sem ekki verður lengur hægt að tryggja öryggi fanga, fangavarða né réttindi sem fangar ættu lögum samkvæmt að njóta. Það stefndi í að loka þyrfti opnum fangelsum og biðlisti í afplánun myndi lengjast enn frekar og fjöldi mála myndi fyrnast vegna þessa. Þetta vissi ríkisstjórnin strax í haust. Þetta vissi ríkisstjórnin í vor þegar fjármálaáætlun var gerð en beðið er með að bæta við fjármagni þar til neyðarópin í fjölmiðlum eru orðin svo hávær að góður gluggi skapast fyrir ríkisstjórnina til að mæta með breytingar við eigið fjárlagafrumvarp inn í kerfi sem hún hefur borið ábyrgð á í fimm ár og í raun lengur því að leiðandi flokkur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hefur verið ráðandi bæði í dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu í áratugi. Það liggur alveg fyrir að svona framkvæmd fjármögnunar á stóru kerfunum gengur ekki til lengdar. Það lá fyrir strax við framlagningu fjármálaáætlunar í vor og strax í haust og það er verið að blekkja íslenskan almenning þegar það er verið tromma upp með svona fjármögnun rétt fyrir jól.

Ef við förum aðeins, virðulegi forseti, út í stöðu almannatrygginga má líka nefna hvernig ríkisstjórnin hefur spilað með tilfinningar fátækasta fólksins í landinu á síðustu vikum. Enn eitt árið í röð þarf að grípa til þess ráðs að biðla til stjórnvalda um eingreiðslu fyrir jólin því að staðan meðal öryrkja er orðin svo erfið að metfjöldi leitar nú til hjálparstofnana og umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda. Ríkisstjórnin slær um sig í fjárlögum með því að benda á að hún sé að hækka bætur almannatrygginga til öryrkja og eldri borgara sem nemur verðlagshækkun þrátt fyrir að hún viti mætavel að það á hún lögum samkvæmt að gera. Í því felst engin pólitísk ákvörðun. 69. gr. almannatryggingalaga kveður á um að umræddar greiðslur eigi að fylgja verðlagi eða launum í landinu, hvort heldur sem hærra er, en greiðslurnar hafa hingað til rétt svo fylgt verðlagi. Þær eru enn þá langt undir lægstu launum í landinu og nú er það svo að stór hluti öryrkja fær lægri greiðslur en sem nemur atvinnuleysisbótum.

Nýjasta útspilið er svo breytingartillaga ríkisstjórnar í tengslum við 2. umr. sem ríkisstjórnin treysti sér ekki í við framlagningu frumvarpsins strax í haust, hvað þá í fjármálaáætlun, né að samþykkja síðustu átta ár þar sem tillagan hefur verið lögð fram, að hækka frítekjumark öryrkja upp í 200.000 kr. Frítekjumarkið hefur staðið óhreyft í að verða áratug og hæstv. félagsmálaráðherra greiddi atkvæði gegn tillögunni í fyrra þegar Samfylkingin og fleiri flokkar í minni hlutanum stóðu fyrir tillögunni.

Vissulega ber að fagna því að eitthvað hreyfist í þessum málaflokki en að mati 1. minni hluta er þessi afgreiðsla ekki boðleg. Fátækasta fólkinu í landinu er haldið í heljargreipum fram á síðustu stundu. Eins og svo víða er neyð sköpuð til þess að geta hlaupið inn og bjargað málunum fyrir horn. Svona verklag má ekki endurspegla stjórnunina í landinu. Við komumst einfaldlega ekkert áfram. Við sitjum bara föst.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að tala aðeins á almennum nótum um stöðuna í aðhaldsmálum hæstv. ríkisstjórnar. Það er til marks um stefnuleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að vera með hinar almennu aðhaldskröfur, sem eru reyndar settar af fjármálaráðuneytinu en kvittað undir af allri ríkisstjórninni, af því að það liggur engin stefna að baki né greining á því hverju þetta aðhald raunverulega skilar. Þetta hefur einfaldlega orðið til þess að flest ráðuneytin hafa gripið til þess að mæta þessu aðhaldi með frestun á viðhaldi og niðurfellingu verkefna tímabundið. Þetta aðhald skilar sér því ekki í aukinni framleiðni eða getu í stjórnsýslunni. Þetta frestar aðeins verkefnum eins og fyrr sagði og í mörgum tilvikum þar sem viðhaldi og fjárfestingu er frestað eykur það kostnaðinn síðar meir.

Gott dæmi um þetta er tvöföld aðhaldskrafa sem skellt var á flesta málaflokka í þessu fjárlagafrumvarpi til að mæta þenslunni í samfélaginu, þenslu sem ekki var vilji til að mæta með tekjuaðgerðum þar sem þenslan er raunverulega til staðar. Í tilviki lögreglunnar þýðir þetta 2% aðhaldskröfu á grunnþjónustu þar sem launakostnaður er um 80% af kostnaði. Sífelld krafa en flatt aðhald ár frá ári þrengir þannig stöðugt að getu löggæslunnar til mannaráðninga. Viðbótarframlag ríkisstjórnarinnar til löggæslunnar kemur nú inn í 2. umr., upp á 900 millj. kr., líkt og þetta hafi verið vandi sem hafi ekki verið vitað um strax í fjármálaáætlun þegar þessi 2% aðhaldskrafa var sett á. En þessar 900 millj. kr. mæta strax 400 millj. kr. aðhaldi á næsta ári og eftir örfá ár eða misseri verður búið að éta allt þetta fjárframlag upp. Lögregluembættin veigra sér við að ráða í stöður af því að þau vita að fjármagnið er bara tímabundið, fyrirsjáanleikinn er enginn. Hverju skilar þetta aðhald öðru en minni skilvirkni og skertri þjónustu í grunninnviðum?

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ríkið sé ekki rekið líkt og fyrirtæki er það þekkt fyrirbæri úr rekstri að það þarf að fjárfesta í framþróun og aðhaldi. Það þarf stefnu og sýn um hvernig má hagræða í rekstri sem felur oftar en ekki í sér upphafsfjárfestingu. Í breyttum heimi þýðir þetta oftar en ekki nýtingu á tækni og breyttu verklagi en ef fjármagnið er ekki veitt í slíka uppstokkun og fjárfestingu í breyttum innviðum verður aðhaldið algjörlega marklaust. Fjárhagsramminn er svo þröngur hjá stjórnvöldum því að öll áherslan er á útgjaldahliðinni í stað þess að styrkja tekjuhliðina að engin þolinmæði er til staðar, ekkert úthald til að ráðast í langtímabreytingar sem gætu kostað okkur til að byrja með en sparað okkur milljarða síðar meir. Í millitíðinni brennur fólkið okkar út.

Virðulegur forseti. Svipaðan tón má merkja frá heilbrigðisstofnunum. Stafvæða þarf heilbrigðiskerfið en fjármagn í slíka vegferð er af afar skornum skammti. Hæstv. ríkisstjórn hefur fengið upp í hendurnar fjöldann allan af skýrslum frá virtum ráðgjafafyrirtækjum sem benda á tækifærin sem gætu falist í slíkri stafvæðingu, og eins með breyttri skipan legurýma í landinu með aukinni fjárfestingu. En umrædd ráðgjafafyrirtæki segja líka satt: slík hagræðing birtist ekki fyrr en árið 2040, ef farið yrði af stað í slíka vegferð núna. Hún birtist ekki innan árs. Ríkisstjórnin hefur hvorki kjark né þor til að segja fólkinu í landinu að það muni kosta okkur í nokkur ár að færa landið upp á hærri og betri grunn. Hún þorir ekki að segja fólkinu í landinu að það þurfi viðbótarfjármagn til að koma okkur út úr þeim vítahring sem hefur skapast víða enda kallar það á pólitíska forgangsröðun, umræðu um tekjur ríkissjóðs og það kallar á sýn og alvöruákvarðanatöku.

Virðulegi forseti. Skortur á langtímasýn er ekki það eina sem einkennir þetta fjárlagafrumvarp eða almenna stjórnun hæstv. ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ef við tölum aðeins um stöðuna til skamms tíma hefur svo sannarlega komið í ljós í þágu hverra þessi ríkisstjórn starfar. Við göngum nú í gegnum háverðbólgutímabil sem reynir á þanþol hagstjórnarinnar, reynir á forgangsröðun. Ríkisstjórnin mætti til leiks í vor með endurskipulagða fjármálaáætlun fyrir næsta ár til að mæta erfiðu verðbólguumhverfi. Þar var sýnin mjög skýr því að þær aðhaldsaðgerðir sem boðaðar voru í vor og héldu velli inn í þetta fjárlagafrumvarp — þar gaf ríkisstjórnin sig ekki — voru aðgerðir sem fólu í sér í grófum dráttum að fjárfestingu var frestað enn einu sinni og ráðist var í almennar skattahækkanir í formi flatra krónutöluhækkana.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er nefnilega að hækka skatta. En á hverja hækkar hún skattana? Á almenning í landinu. Og á hverjum bitna þessar skattahækkanir harðast? Lægst launaða fólkinu í landinu sem greiðir jafn há krónugjöld og hátekju- og eignafólkið og litlu og meðalstóru fyrirtækin greiða sömu krónutölugjöld og stórfyrirtækin. Ríkisstjórnin leitar beint í vasa almennings í stað þess að grípa til aðgerða til að fjármagna aðhaldsaðgerðir þar sem svigrúmið er raunverulega til staðar.

Við komum út úr árabili þar sem methækkun var á fjármagnstekjum í landinu, en í fyrra jukust þær um 52%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna efstu tekjutíundarinnar jókst tvöfalt ef ekki þrefalt á við annarra tíunda. Mikil þensla hefur verið á eignamörkuðum, bæði húsnæðis- og verðbréfamörkuðum. Þessi þensla er að hluta til afleiðing af aðgerðum stjórnvalda sem kyntu undir bólumyndun á eignamörkuðum á tímum heimsfaraldurs. Á sama tíma hafa útflutningsgreinar, sér í lagi sjávarútvegurinn, hagnast verulega vegna breyttra viðskiptakjara í tengslum við stríðið í Úkraínu. Þannig hefur verð á ferskum fiski í Evrópu hækkað mikið og stutt við verðmæti sjávarafurða og tekjur og hagnaður Landsvirkjunar hefur aukist vegna hækkunar á álverði. Á sama tíma hefur hluti heimilanna í landinu liðið fyrir erlenda verðbólgu vegna stríðsins. Ólíkt arðsemi Landsvirkjunar, sem rennur óskipt til ríkissjóðs og þar með til þjóðarinnar, á hið sama ekki við um arðsemi í sjávarútvegi, sér í lagi í stórútgerðinni sem býr við allt aðrar aðstæður en minni fyrirtæki í atvinnugreininni um land allt.

Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að enginn vilji hefur verið innan ríkisstjórnarinnar til að hrófla við gjaldtöku á þeim sviðum samfélagsins sem hafa hagnast á ástandinu á meðan almenningur líður skort. Dempunin sem á að vera innbyggð í okkar samfélag í svona aðstæðum virkar ekki ef stjórnvöld trúa ekki á endurdreifingu. Fylgiflokkar forystuflokksins í ríkisstjórn hafa tekið upp hægri trúna um að núverandi uppsetning mála sé svona af náttúrunnar hendi, að svona dreifist tekjurnar og arðurinn einfaldlega út frá frjálsum markaði sem hefur ekkert með ramma sem settur er af stjórnmálamönnum að gera. En hér er ekkert til sem heitir frjáls markaður sem fellur af himnum ofan. Þetta er allt saman skapað af opinberu regluverki, sem á að endurspegla vilja samfélagsins og fólksins í landinu. Og núverandi staða endurspeglar ekki þjóðarvilja. Hér gerist ekkert í tómarúmi, stjórnmálin eru alls staðar og það er ekki hægt að skila auðu í svona verkefnum.

Að þessu leyti er pólitísk forgangsröðun ríkisstjórnarinnar skýr. Fram hjá henni verður ekki litið. Skattahækkanir á hinn almenna borgara en öðrum hlíft þrátt fyrir fulla meðvitund um hvar þenslan í samfélaginu liggur þessa dagana.

Þessi pólitík hugnast ekki okkur jafnaðarfólki. Þess vegna má finna í okkar breytingartillögum aðgerðir sem snúa við almennri gjaldahækkun ríkisstjórnarinnar. Aðhaldinu er að okkar mati skynsamlegra að mæta með hækkun á þeim tekjustofnum þar sem svigrúmið hefur svo sannarlega myndast, til að mynda í fjármagnstekjum, hjá stórútgerð og hjá fjármálastofnunum.

Virðulegi forseti. Mig langar, áður en ég fer hér yfir breytingartillögur 1. minni hluta, sem Samfylkingin kynnti reyndar fyrr í dag, að fara aðeins yfir stöðuna í innviðafjárfestingu og húsnæðismálum í landinu. Staðreyndin er sú að stór rót verðbólgunnar sem stjórnvöld bera ábyrgð á og reyna að berjast við er staðan á húsnæðismarkaðnum. Almennar aðgerðir í heimsfaraldri kyntu vissulega undir eignaverðshækkunum. En skortur á húsnæði á viðráðanlegum kjörum og tregða stjórnvalda við að styrkja félagslegar forsendur húsnæðismarkaðarins er stór ástæða mikilla íbúðaverðshækkana. Í nágrannalöndum okkar er húsnæði sem er rekið á óhagnaðardrifnum forsendum hátt í fimmtungur af markaðnum. Hér er sú tala 5%. Úrræðaleysi hefur verið til staðar í húsnæðismálum hér á landi allt frá því að verkamannabústaðakerfið var lagt niður um aldamótin, og farin sú leið að hvetja fólk til stórtækrar skuldsetningar í gegnum Íbúðalánasjóð — sem síðar fór í samkeppni við bankana með hörmulegum afleiðingum — í stað þess að standa undir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Þessi stefna hefur orðið til þess að við erum sífellt að elta skottið á okkur, ekkert akkeri er á íbúðamarkaði sem heldur aftur af verðhækkunum. Lausnin er bara sífellt meira lánsfjármagn, sem þrýstir verðinu ofar og ofar. Skammtímalausnir berast frá stjórnarliðum um að kippa húsnæðisliðnum út úr verðbólgunni til að hún mælist ekki jafn há, þegar ljóst er að aðeins er um mælikvarða að ræða. Slík aðgerð lagar ekki grundvallarvandann sem er síhækkandi verð á heimilum fólks.

Hvernig bregst ríkisstjórnin við þessu ástandi á húsnæðismarkaði? Jú, hæstv. innviðaráðherra boðaði stórátak í uppbyggingu húsnæðis í vor. Glærukynningar og blaðamannafundir um sama efni voru haldnir víða, þar sem boðuð var uppbygging á 4.000 íbúðum á ári næstu árin. Þar af yrði þriðjungur með óhagnaðardrifnu formi sem ríkisstjórnin ætlaði að fjármagna til móts við sveitarfélögin.

Þessar áherslur hafa verið stærsta einstaka áherslumál Framsóknarflokksins síðustu misserin. Sama flokks og ber ábyrgð á núverandi stöðu á íbúðamarkaði; flokksins sem lagði niður verkamannabústaðakerfið, kom á fót Íbúðalánasjóði og breytti fjármögnun sjóðsins með eftirminnilegum hætti sem skildi eftir sig hundruð milljarða skuldir sem falla nú á ríkissjóð. Sama flokks og lofaði ítrekaði í vor að fjármagn væri á leiðinni fyrir húsnæðisuppbyggingu eftir að ljóst var strax í vor í fjármálaáætlun að niðurskurður blasti við í framlögum til uppbyggingar félagslegs húsnæðis, þvert á glærukynningar sama vorið hjá hæstv. innviðaráðherra. Sama flokks og sama ráðherra sem mætti í fjölda viðtala í haust og hélt ræður hér á Alþingi um að þó að peningurinn í húsnæðisuppbygginguna hefði ekki birst í fjárlagafrumvarpinu í haust þá væri hann á leiðinni. Enn einn jólagjafaglaðningurinn sem átti að grípa til í byrjun desember, sem birtist svo aldrei. Það eru engin ný framlög inn í húsnæðiskerfið á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, það eru engin ný framlög við 2. umr. Stórsóknin er engin.

En hvernig stendur á því, virðulegi forseti, þrátt fyrir að ein helsta gagnrýni á efnahagsaðgerðir um heim allan eftir síðustu kreppu hafi snúið að vanfjárfestingu, að stjórnvöld grípa við fyrsta tækifæri til þess ráðs að skera niður í fjárfestingu þegar kreppir að á ný? Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ákvað að skera niður um 10 milljarða kr. á næsta ári í opinberri fjárfestingu í nafni aðhalds. Hæstv. innviðaráðherra ber fyrir sig að ástæðan fyrir því að meira fjármagn í uppbyggingu húsnæðis finnst ekki í fjárlagafrumvarpinu, sem var grundvöllur stórátaks í húsnæðismálum til að vinna á verðbólgu og bæta kjör fólks til lengri tíma, sé sú að það sé einfaldlega ekki hægt að byggja á tímum sem þessum. Þá birtist okkur fyrr í haust endurskoðaður ríkisreikningur fyrir síðasta ár sem sýnir að 100 milljarðar kr. af þeirri fjárveitingu sem Alþingi samþykkti til að ráðast í fjárfestingarátakið, sem var svo víða auglýst eftir heimsfaraldur, hafa ekki verið nýttir. Ríkisstjórnin getur ekki komið fjármagninu í vinnu.

Sveiflur í innviðauppbyggingu og opinberri fjárfestingu hér á landi hafa veikt getu kerfisins gríðarlega. Innviðauppbygging þarf að vera stöðug, hún þarf að vera óháð hagsveiflu, með hana má ekki hringla. Þetta stefnuleysi í innviðauppbyggingu hefur dregið úr getu hagkerfisins til að sinna nauðsynlegri uppbyggingu í þágu þjóðar. Ég spyr, virðulegi forseti: Hver ber ábyrgð á getuleysi kerfisins til að byggja þegar þörf er á? Er eðlilegt að þau sem halda um stjórnartaumana beri einfaldlega fyrir sig að þau geti ekki byggt? Hverjir eiga að bera ábyrgð á umgjörð samfélagsins hér á landi?

Virðulegi forseti. Mig langar, áður en ég tek fyrir sértæka málaflokka, að tala um breytingartillögur 1. minni hluta, breytingartillögur Samfylkingar – Jafnaðarflokks Íslands. Sú plástrapólitík sem hefur einkennt ríkisstjórnarsamstarfið gengur augljóslega ekki til lengdar. Ég myndi segja að verklagið við vinnu þessara fjárlaga sé lýsandi dæmi um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur starfað; til skamms tíma og á síðustu stundu. Með brostinn tekjugrunn sem grefur undan fjármögnun velferðarþjónustunnar, með kjarkleysi í uppfærslu á velferðarkerfinu okkar og innstæðulausri vilyrðapólitík finnur ríkisstjórnin sig í endalausu kapphlaupi um hver áramót að stoppa í götin. Það er augljóst af stjórnun síðasta áratugar að við völd hefur verið ríkisstjórn sem kann ekki á velferðarkerfin okkar, skilur þau ekki og þekkir ekki. Það var jafnaðarfólk sem barðist fyrir velferðarkerfinu og veit að uppfæra þarf það í takt við tímann. Það er alveg ljóst að langtímaverkefni í augum okkar jafnaðarfólks er endurreisn í stóru kerfunum okkar, heilbrigðis- og öldrunarmálum og almannatryggingakerfinu og líka þegar kemur að uppbyggingu innviða sem styðja við atvinnu og kjör. Þetta er eitthvað sem verður ekki leyst, virðulegi forseti, með tilfallandi breytingartillögu við gerð fjárlaga hverju sinni. Það liggur alveg fyrir að ef langtímasýnin varðandi kjör heilbrigðis- og umönnunarstétta, sem eru að langmestu leyti í höndum hins opinbera, væri til staðar þá þyrfti ekki að leggja til skammtímaaðgerðir nú rétt fyrir jól við 2. umr. Við í Samfylkingunni munum auðvitað halda áfram að tala fyrir úrræðum sem lyfta velferðarkerfinu okkar upp á hærra plan. En það liggur alveg fyrir að til þess að eiga slíka umræðu þá þarf að eiga sér stað hreinskiptið samtal um fjármögnun slíkra kerfa af því að við sjáum það svart á hvítu í samanburði við nágrannaþjóðir okkar að hér er stór hluti velferðarkerfisins vanfjármagnaður. Þetta hefur leitt til þess að kerfislægur vöxtur vindur upp á sig. Dýr úrræði eru nýtt að óþörfu, mannauður nýtist illa og brennur út og þetta leiðir að lokum til þess að örorka eykst, geðheilsa versnar og flótti verður úr heilbrigðis- og umönnunarstéttum. Þess vegna eigum við einfaldlega ekki annarra kosta völ en að taka á þessum vanda. Það þarf einfaldlega ríkisstjórn sem viðurkennir það og hefur kjark til að forgangsraða fjármagni og sækja tekjur til að standa undir grunnþjónustunni.

Ef við snúum okkur að þeim kjaramálum sem 1. minni hluti vill leggja áherslu á í sínum breytingartillögum þá snúa þau einna helst að því að draga úr verðbólgu og verja almenning og heimilisbókhald íslenskra heimila fyrir þeirri stöðu sem upp er komin í íslensku samfélagi. Aðalástæðan fyrir því að við leggjum þetta fram, virðulegi forseti, með þessum hætti er mikilvægi þess að sýna að það er önnur forgangsröðun til sem má beita sér fyrir núna strax um áramótin án mikils flækjustigs. Hér er því ekki ætlunin að taka yfir stefnu stjórnvalda enda er langtímasýn þeirra bundin í stjórnarsáttmála og meðfylgjandi lagasetningu. En við vitum alveg að stóra áskorunin þessi misserin er kjararýrnun heimilanna. Við sjáum sögulega háa verðbólgu birtast í heimilisbókhaldi almennings, sérstaklega hjá millitekjuhópum og fólki á lægstu tekjunum í landinu. Líkt og ég fór yfir áðan má rekja þessa verðbólgu til brotins húsnæðismarkaðar og svo þróunar á verðlagi á alþjóðavísu. Við vitum öll hér inni að Alþingi getur gegnt lykilhlutverki í að draga annars vegar úr slíkri verðbólgu og hins vegar að verja heimilin í landinu fyrir áhrifum hennar. Við leggjum því til í þeim breytingartillögum sem fylgja nefndaráliti okkar að staðið verði við loforð um viðbótarfjármagn í stofnframlög til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði til að halda aftur af hækkun húsnæðisverðs. Þetta er einfaldlega lykilþáttur í að hemja verðbólguna í landinu og dregur að sama skapi úr þrýstingi á laun síðar meir þar sem lægra hlutfall ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað skiptir auðvitað sköpum fyrir heimilin. Hér er því lagt til að 4 milljarðar verði lagðir í stofnframlög til viðbótar við núverandi fjárheimildir. 1. minni hluti er hins vegar meðvitaður um að slík uppbygging tekur tíma, jafnvel þótt auknar fjárheimildir verði nýttar til uppbyggingar strax á næsta ári, líkt og hafði verið lofað. Í íslensku velferðarkerfi hefur markvisst verið unnið að veikingu vaxtabótakerfisins undanfarinn áratug. Þetta hefur verið undir forystu núverandi ríkisstjórnar eða ígildis hennar sem hefur verið hér við völd í að verða áratug. Hugmyndin á bak við þessar breytingar var alltaf að fjármagninu yrði frekar beint í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis en í niðurgreiðslu vaxtagjalda en við þau loforð hefur einfaldlega ekki verið staðið. Til skamms tíma erum við meðvituð um að það er nauðsynlegt að bregðast við aukinni kostnaðarbyrði heimilanna í landinu, sér í lagi lágtekju- og millitekjuheimila, með því að styrkja vaxtabótakerfið.

Ég vil vinda ofan af þessari stefnu með því að eignaskerðingarmörk vaxtabótakerfisins verði hækkuð um 50% í það allra minnsta. Þessi tala er ekki tekin úr lausu lofti heldur er þetta ígildi hækkunar íbúðaverðs sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu síðan heimsfaraldur skall á snemma árs 2020. Við vitum, samkvæmt minnisblaði sem skattskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins vann að beiðni hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að slík hækkun kostar um 700 millj. kr. og renna þessar milljónir að langmestu leyti til 4., 5. og 6. tekjutíundar, þeirra heimila sem hafa fundið fyrir langmestu vaxtahækkunum á undanförnum mánuðum. Tekjutíundirnar fyrir neðan eru því miður í ríkari mæli á leigumarkaði og telur 1. minni hluti því æskilegt að styðja við þær með hærri húsnæðisbótum og bremsu á hækkun leiguverðs eins og gert hefur verið í Danmörku og Skotlandi. Ég vil vekja athygli á því að í Danmörku er nú þegar um 20% af húsnæði sem er í útleigu á félagslegum forsendum en engu að síður þótti dönsku ríkisstjórninni nauðsynlegt að fara í leigubremsu. Hér erum við með 5% húsnæðis í félagslegri eigu eða stýringu og engin stýring er á leiguverði á almennum markaði. Samfylkingin hefur nú þegar mælt fyrir innleiðingu leigubremsu á yfirstandandi þingi og hvetur til þess að það verði skoðað í þessu samhengi. En þá viljum við líka vekja athygli á því að húsnæðisbætur þurfa að hækka. Við leggjum til að hækka þær um 10% til viðbótar við þá hækkun sem við sáum fyrr á árinu vegna þess að það liggur alveg fyrir að þessi 10% aukning, sem varð núna á miðju sumri og var trommuð upp sem mikil breyting, hverfur í skuggann af því að á því tímabili sem umræddar bætur stóðu óhreyfðar hækkaði leiguverð um 35%.

Þá leggjum við til að barnabætur verði hækkaðar til að mæta auknum tilkostnaði fjölskyldufólks vegna almennra kostnaðarverðshækkana í landinu. Það liggur auðvitað alveg fyrir í stóru myndinni að Ísland er eftirbátur Norðurlandanna þegar kemur að greiðslum vegna framfærslu barna. Þrátt fyrir að við höfum séð staka eingreiðslu í ár í formi mótvægisaðgerðar stjórnvalda liggur það fyrir samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi að barnabætur dragast saman að raunvirði milli áranna 2023 og 2023 ef þetta frumvarp fer í gegn óbreytt. Hér er um risastórt kjaramál að ræða og ábyrgð stjórnvalda er því mikil að verja heimilin í landinu fyrir verðbólguástandinu.

Þess má geta að þessir 3 milljarðar sem 1. minni hluti leggur til að verði bætt við fjárheimildir til barnabóta er 22% hækkun, næstum fjórðungshækkun miðað við núverandi fjárheimild. Það segir allt sem segja þarf um það fjármagn sem er sett í þennan málaflokk eins og sakir standa.

Ef við lítum síðan á kjaramálin út frá tekjuhlið ríkissjóðs er það óskiljanlegt að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þenslu séu þau að hækka almenna gjaldheimtu í landinu með flötum krónutöluhækkunum. Hæstv. ríkisstjórn er að hækka skatta með þessu fjárlagafrumvarpi en ákveður að vaða bara í almenning þar sem kjararýrnun er víða í stað þess að leita í augljósa sjóði sem hafa bólgnað út í núverandi ástandi. Það er auðvitað risastórt kjaramál að halda aftur af flötum skattahækkunum, enda er það verðbólguhvetjandi aðgerð en auk þess bitnar slík skattheimta hlutfallslega mest á tekjulægstu heimilunum í landinu. Hér er því lagt til að fallið verði frá hækkunum krónutölugjalda umfram verðbólgumarkmið. Við vitum að kostnaðurinn af slíkri breytingu er u.þ.b. 4 milljarðar kr. Þetta fjármagn má sækja á aðra staði. Til að mæta þessari breytingu, sem er ábyrg og til þess að verja kjör almennings, er lagt til að ráðist verði í hækkun fjármagnstekjuskatts úr 22% í 25%. Vitað er, af minnisblaði sem minni hlutinn óskaði eftir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, að slík hækkun myndi að nær öllu leyti falla á tekjuhæstu 10% þjóðarinnar, sama hópinn og hefur séð tvöfalda ef ekki þrefalda kaupmáttaraukningu á við allar aðrar tekjutíundir í landinu undanfarið. Slík hækkun er af ráðuneytinu talin geta skilað rúmlega þeirri upphæð sem krónutölugjöldin okkar skiluðu, 5 milljörðum.

Að lokum teljum við til fleiri úrræði á tekjuhliðinni sem hægt er að grípa til án þess að sækja í vasa almennings til að vinna á móti kostnaði sem felst til að mynda í hækkun vaxtabóta, húsnæðisbóta og barnabóta, og ég tala nú ekki um stofnframlögin Þetta fjármagn er til staðar og er hægt að sækja í án þess að skapa neyð á heimilum landsins. Það liggur alveg fyrir að samhliða þeirri kjararýrnun sem margir hafa orðið fyrir hér á Íslandi undanfarna mánuði hafa fyrirtæki í útflutningsgreinum, sérstaklega í sjávarútveginum, hagnast verulega á þessu ástandi. Þess vegna leggjum við til að fjármagna þurfi fyrrgreindar kjaratillögur með sérstöku álagi eða eins konar hvalrekaskatti til endurdreifingar um samfélagið sem gæti skilað hátt í 4 milljörðum kr. Þá erum við að tala um sérálag á stærstu útgerðir landsins. Þetta eru ekki háar upphæðir ef við lítum til þess að hagdeild Alþýðusambandsins hefur metið auðlindarentuna um 30–70 milljarða á ári. Það er búist við því að á næsta ári innheimtist um 8–9 milljarðar af svipaðri rentu.

Þá er líka lagt til að það verði fallið að hluta til frá lækkun bankaskatts sem átti sér stað árið 2019 en slík niðurfelling rýrði á þeim tíma tekjur ríkissjóðs um 6 milljarða. Að hluta til þarf að endurheimta þessar tekjur strax því það er auðvitað alveg ljóst af kostnaðarhækkunum síðasta árs að þetta hefur ekki skilað sér til neytenda eins og talað var um. Það hefur ekkert verið gert á þessu tímabili af hálfu stjórnvalda til að styrkja samkeppni á bankamarkaði og það er auðvitað forsenda þess að svona skattalækkanir skili sér til neytenda. Ekkert hefur heldur breyst í málefnum greiðslumiðlunar þrátt fyrir ítrekaða umfjöllun um mikilvægi þess, bæði út frá sjónarmiði neytenda og þjóðaröryggis, að komið verði á óhagnaðardrifinni lausn í þessum málum eins og í nágrannalöndum okkar. Á tímum þar sem kjararýrnun heimila og almennings er veruleg er einfaldlega ekki forsvaranlegt að skilja eftir stóra fákeppnistekjupósta óhreyfða og hækka gjöld á almenning.

Ég vil í þessu samhengi benda á skýrslu sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfanna frá 2019 þar sem fram kemur að víðtækur misbrestur sé á því hvernig reglur um reiknað endurgjald eru virtar. Það megi ætla að stór hluti atvinnutekna sé ranglega talinn fram sem fjármagnstekjur á Íslandi. Því er lýst yfir í þessari skýrslu að verulegur upplýsingavandi sé til staðar fyrir skattyfirvöld þegar kemur að því að ákvarða aðilum í eigin rekstri eðlileg laun. Það er auðvitað ámælisvert að ekki hafi verið brugðist við þessum ábendingum með frekar einföldum hætti eins og gert er á öllum öðrum Norðurlöndum. Þetta eru einfaldar breytingar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur m.a. talað fyrir. Hagdeild Alþýðusambandsins hefur bent á það í nýlegri skýrslu um skattkerfið á Íslandi að með aðgerðum sem takmarka slíkan tekjutilflutning, að fólk skammti sér í raun og veru fé með því að ákvarða skattheimtuna út frá fjármagnstekjum frekar en launatekjum, verði hið opinbera af 3–8 milljörðum á ári hverju. Við leggjum til að umræddu gati í skattkerfinu verði lokað. Þetta snýst ekki einu sinni, virðulegi forseti, um skattahækkun eða -breytingu. Þetta snýst um að lokað verði á þessa skattasniðgöngu sem gerir það að verkum að fólk í þessari stöðu, sem er oft í tekjuhærri endanum, geti skammtað sér fjármagn og ákveðið skattprósentuna sína.

Með þessu móti, ef við teljum saman breytingartillögur 1. minni hlutans, sjáum við að um 17 milljarða er að ræða á tekjuhliðinni sem þarf svo sannarlega að taka til skoðunar í ljósi verðþrýstings, á móti 13 milljörðum sem við teljum okkur geta skilað til almennings. Með þessu erum við líka að sýna ábyrgð, draga úr verðtryggingu í samfélaginu og verja kjör almennings. Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að um gerlegar tillögur er að ræða sem sýna svart á hvítu að pólitísk forgangsröðun skiptir máli.

Mig langar í blálokin að nefna að umræða hefur verið um það í hv. fjárlaganefnd að mögulega séu að koma inn tillögur í húsnæðismálum sem gætu hugsanlega klárast fyrir 3. umr. Nú hefur einnig borið á orðræðu í fjölmiðlum frá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra um einhverjar óskilgreindar kjarabætur sem er verið að ræða út af kjarasamningum. Ég vil leggja áherslu á og við í Samfylkingunni mikilvægi þess að stjórnun velferðarmála í þessu landi sé ekki rekin með þessum hætti, að við séum enn og aftur að bíða eftir að neyð komi upp eða vandamál í kjarasamningum til þess eins að styrkja velferðarkerfið. Það liggur alveg fyrir að við erum eftirbátar Norðurlandanna þegar kemur að barnabótum, húsnæðisbótum og félagslegu húsnæðiskerfi. Staðreyndin er einfaldlega sú að sá vandi sem birtist okkur núna á vinnumarkaði, og stjórnvöld telja sig þurfa að hlaupa inn í með heimildum fyrir kjarapakka sem er hvergi fjármagnaður í þessu frumvarpi, birtist hvergi í nefndinni við vinnslu þess — þessar aðgerðir þyrfti ekki til ef grunnurinn væri sterkari en hann væri. Við munum að sjálfsögðu fagna því í Samfylkingunni – Jafnaðarflokki Íslands ef litið yrði til okkar tillagna, hvort sem er við vinnslu frumvarpsins á lokametrunum eða á næsta ári ef það verður til þess að við þurfum að samþykkja hér fjárauka.