Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, varðandi stofnframlögin þá er það nú þannig að hæstv. ráðherra vildi meina að með tilflutningi þessara ónýttu 2 milljarða, sem við sáum á þessu ári, yfir á næsta ár væri hægt að byggja í heildina um 400 íbúðir fyrir 3,7 milljarða kr. Ef við tvöföldun þá upphæð erum við að tala um að byggja 800 íbúðir. Ég vil leggja áherslu á að hingað til hafa verið byggðar um 500–600 íbúðir á ári og það hefur ekki verið nóg til að hreyfa nálina. Það var loforð um 1.200 íbúðir. Við erum ekki einu sinni að fara upp í þau loforð, við erum einfaldlega að gera þá kröfu að stjórnvöld þrýsti á þá þróun að það verði einhver framþróun, einhverjar framfarir í þessum málaflokki.

Varðandi hvort það sé svigrúm og geta til að byggja þetta í kerfinu þá langar mig að nefna í því samhengi, af því að hér hefur aðeins verið rætt um lóðaskort sem kemur svo oft upp í þessu samhengi, að í fréttunum um daginn var viðtal við m.a. samflokksmann hv. þingmanns sem fullyrti sem borgarfulltrúi og formaður borgarráðs að það væru um 3.000 lóðir sem væri verið að vinna með að úthluta m.a. undir rammasamningi við stjórnvöld. Og allt þetta ár hefur verið nýtt í að teikna upp þessa lóðaskipan ef eitthvað hefur misfarist á árinu og komið í veg fyrir að stofnframlög hafi farið út. Ég vek athygli á því að ef bara Reykjavíkurborg myndi nýta þriðjung af þessum lóðum til að úthluta til óhagnaðardrifins húsnæðis þá væri um 1.000 íbúðir að ræða og við vitum öll að það er ekki bara í Reykjavík sem þarf að byggja slíkar íbúðir. Þannig að já, ég tel einsýnt að það sé hægt að koma þessu fjármagni út og þau sveitarfélög sem hafa lent í vanda, m.a. út af innviðauppbyggingu á kostnaði sem við vitum að á sér stað í hratt stækkandi sveitarfélögum, þá er þetta staður fyrir stjórnvöld til að koma inn og hjálpa til við slíkan kostnað vegna þess að þetta er auðvitað partur af keðjunni sem stjórnvöld þurfa að styðja við og koma þessu fjármagni út.