Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Aðeins aftur um þetta yfirlit sem sýnir framlag ríkisstjórnarinnar til loftslagsmála. Hér er teiknað upp og flokkað undir loftslagsmál fimm ár fram í tímann upphæð sem byrjar í 4,7 milljörðum og endar í 4,7 milljörðum á tímabilinu. Þetta eru rekstrarframlög. Sveiflurnar koma í millifærslunum eins og til rafbílakaupa. En þegar kemur að einhverjum grunnrekstri þá er flöt lína fram undan. Og meira að segja, vegna þess að hv. þingmaður talaði um kreatífar skilgreiningar á grænni fjárfestingu, þá eru nú heldur betur kreatífar skilgreiningarnar í þessu minnisblaði þar sem það er mat umhverfisráðuneytis og Veðurstofunnar að í víðum skilningi megi flokka alla starfsemi Veðurstofunnar undir loftslagsmál. Þannig næst að smyrja 3 milljörðum inn í þessa töflu. Ég veit ekki, vöktun á jarðskjálftum, er það loftslagsmál? Eldfjallarannsóknir, eru það loftslagsmál? Það er staðreynd (Forseti hringir.) að Veðurstofan er að helmingi rekin fyrir sjálfsaflafé. Ég nefni styrki erlendis frá vegna jarðfræðirannsókna sérstaklega. (Forseti hringir.) Getur ríkisstjórnin skreytt sig með því sem framlagi sínu til loftslagsmála?

(Forseti (LínS): Forseti ítrekar við hv. þingmenn að ræðutíminn er ein mínúta.)