Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:48]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og sömuleiðis vil ég þakka henni fyrir ljómandi samstarf í fjárlaganefnd. Ég vil byrja á því að segja að mér kemur það ekkert á óvart að þingmanni Viðreisnar komi það á óvart að líftími ríkisstjórnarinnar sé fimm ár eða skemur, svo það sé nú sagt. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi að nú er talað um hátt vaxtastig og aðgerðir og annað og ég varð ekki var við að hv. þingmaður minntist nokkurn tímann á nema það sem ríkisstjórnin gerði, sem væri slæmt, en ekki komið með neinar lausnir í staðinn, hvað væri hugsanlega hægt að gera í þessum ólgusjó sem nú væri fram undan. Þá á ég ekki við að ganga í Evrópusambandið á morgun.