Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Lánskjör á Norðurlöndunum eru bara prýðileg. Ég er nú sjálfur fasteignareigandi í Ósló, á þar litla íbúð. Það að eignast fasteign í Noregi er alveg jafn erfitt og á Íslandi, ef ekki erfiðara. Það er óvenju erfitt í dag á Íslandi vegna skorts á framboði af húsnæði. Íslenskur húsnæðismarkaður er ekki hluti af húsnæðismarkaði Evrópu, hann er staðbundinn, byggist á framboði og eftirspurn eftir húsnæði á Íslandi. Vextir koma þar vissulega inni en háir vextir reiknast inn í íbúðaverðið á Íslandi. Verð á íbúðum í Noregi t.d. er miklu hærra en á Íslandi af því að vextir eru lægri. Málið er að það að eignast húsnæði á Íslandi verður ekkert léttara þó að evran komi til skjalanna. Ástæðan fyrir því að vextir á evrusvæðinu eru ekki háir í dag er sú að ef vextir hækka út af verðbólgunni þá mun evran sennilega hrynja. Af hverju? Jú, af því að Grikkland, Ítalía og Spánn munu ekki þola háa vexti í Evrópusambandinu. Ég skora á hv. þingmann að gúgla þetta. Þetta liggur algerlega kristaltært fyrir. (Forseti hringir.) Gjaldmiðillinn er bara metrakerfið, svo það liggi fyrir, það er verðmætasköpunin sem skiptir máli. (Forseti hringir.) Evran mun ekki bjarga okkar. Vakningin er að sjá að það er íslenska krónan sem er málið.