Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Já, þetta eru aðhaldssöm fjárlög sem sinna brýnustu þörfum. Þá finnst mér sérstaklega áhugavert að skoða muninn á fjárlagafrumvarpinu eins og það er lagt fram í haust og núna breytingartillögunum þegar kemur í ljós í nýjum þjóðhagsreikningum að hagsveiflan, sem var búist við að yrði aðeins seinna, er fyrr á ferðinni. Það sýnir okkur bara svart á hvítu hver forgangsröðunin var. Án þeirrar hagsveiflu værum við 12,2 milljörðum fátækari í heilbrigðismálum. Þar var skorið niður vegna ekki nægilega mikillar hagsveiflu upp á við. Hv. þingmaður kallaði þetta lífsnauðsynlegar viðbætur. Er það staðan sem við vorum í í haust? Eru það fjárlög sem þessi ríkisstjórn hefði viljað leggja fram þrátt fyrir hagsveifluna? Eru þau ekki að setja forganginn einmitt til að koma í veg fyrir að við sköðum líf og limi? Þess vegna finnst mér þetta áhugavert, því ég er að glíma við lög um opinber fjármál um það hvernig á að haga þessu, hvernig á að setja fram stefnumörkun stjórnvalda, hvernig á að vera með kostnaðar- og ábatagreiningu, hvernig á að sýna forgangsröðunina og valkostagreininguna, hvernig eitt er valið umfram annað. Það sem ég sé í fjárlagafrumvarpinu í haust er að heilbrigðiskerfinu var hafnað. Sem betur fer kom hagsveiflan fyrr til að redda því — að lágmarki. Ég get ekki lesið annað út úr því en að heilbrigðiskerfið sé á eftir öllu öðru sem var í forgangi í fjárlagafrumvarpinu í haust.