Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[15:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu hér um pólitíska ábyrgð á Íslandi þar sem hún virðist ekki vera mikil oft og tíðum. Að axla pólitíska ábyrgð er að segja af sér ef maður nýtur ekki þingmeirihluta fyrir störfum sínum. Þar er líka skírskotun til þingræðisreglunnar og þess að ef ráðherra gerist sekur um afglöp þá beri honum að segja af sér og viðurkenna afglöp sín. Um armslengd og hvernig forsætisráðherra skilgreinir armslengd verð ég að segja það að í vor notaði hann hugtakið nokkuð oft varðandi sölu á Íslandsbanka. Sama gerði fjármálaráðherra og sama hafa stjórnarþingmenn gert. Málið er, og það þarf að vera algerlega kristaltært, að við söluna á Íslandsbanka í vor var engin armslengd milli ráðherra og Bankasýslunnar. Bankasýslan er ekki sjálfstæð stofnun að lögum, hún er ekki sjálfstæð stofnun varðandi sölumeðferðina. Lögin sem stjórnuðu sölunni, hvaða lög voru það? Jú, það voru lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þar bar fjármálaráðherra að senda greinargerð til Alþingis, fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samning fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutans. Það er engin armslengd. Það er rangt. Það er eins rangt og það getur verið, þannig er nú það. Skilin varðandi armslengdina eru í lögum um Bankasýsluna sjálfa, þar undir er armslengd, varðandi skipun í stjórn bankans og aðra umsýslu bankanna frá degi til dags, ekki varðandi söluna, svo það sé skýrt. Það að ráðamenn skuli vera að nota þetta hugtak til að halda uppi vörnum fyrir sig svo þeir geti setið við völd áfram og ekki axlað hina pólitísku ábyrgð á sölu Íslandsbanka, er bara rangt. Svo einfalt er það. Að halda því fram að lögin um sölumeðferð eignarhluta ríkisins eigi ekki við er einfaldlega rangt. Það eru ekki lög um Bankasýslu sem eiga við um söluna, það eru lögin um sölumeðferðina.