Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

Pólitísk ábyrgð á Íslandi.

[16:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka líka hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Mér finnst mikilvægt að rifja nokkra hluti upp. Hér hefur verið rætt um mikilvægi þess að hæstv. ráðherra gefi þinginu réttar upplýsingar og ég vil bara minna á að það er auðvitað kveðið á um það í þingskapalögum, í 50. gr. þingskapalaga, að ráðherra skuli leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu. Það er ekki eins og við séum í lagalegu tómarúmi hvað það varðar.

Hér er búið að ræða töluvert um armslengd og það er auðvitað hægt að ræða það betur. Ég held að það sé full ástæða til að ræða það hvað við eigum við. En þegar lögin um Bankasýsluna voru sett á sínum tíma þá segir í greinargerð að það sé gert ráð fyrir því að Bankasýsla ríkisins gegni lykilhlutverki við sölumeðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og síðan er fjallað um það hlutverk og sagt sérstaklega að með því móti sé betur tryggt en ella að sala eignarhluta fari fram með hlutlægum hætti, enda sé sérstakri og sérhæfðri ríkisstofnun á sviði banka- og fjármála falið að annast söluna í stað þess að sá aðili sem á endanum afsalar eignarhlutum annist sjálfur sölu þeirra. Mér fannst þetta nú allt skýrt, svona hugsunin a.m.k. á bak við þetta, þó að hugtakið sjálft hafi valdið töluverðum umræðum upp á síðkastið. En Bankasýsla ríkisins fór aldrei í forsætisráðuneytið, mér finnst rétt að ítreka það af því að hér var því haldið fram. Hún hefur heyrt undir fjármálaráðuneytið frá stofnun svo að réttum upplýsingum sé komið á framfæri um þau mál.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni og málshefjanda að það er þörf á frekari fræðslu og leiðbeiningum þegar kemur að eftirfylgni með lögum um varnir gegn hagsmunaárekstrum. Það er nokkuð sem unnið er að, bara svo það sé sagt hér. Við erum hins vegar þegar kemur til að mynda að siðareglum með viðurlög, það er ekki endilega hin íslenska eða norræna hefð og Norðurlöndin hafa ekki gert það, þau hafa ekki innleitt viðurlög þegar kemur að brotum á siðareglum, en við gætum verið virkari í fræðslu.

Síðan finnst mér bara mikilvægt þegar rætt er um pólitíska ábyrgð þeirrar sem hér stendur, (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerði, þá pólitísku ábyrgð sem hún telur að ég beri, að minna á að ég held að hún hafi verið undirrituð í síðustu kosningum þegar sú ríkisstjórn sem nú situr hlaut meiri hluta atkvæða. Gleymum ekki þeirri staðreynd, herra forseti.