Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég biðst velvirðingar, var á smá hlaupum fram og til baka af því að það var verið að athuga hvort það mætti vera í andsvörum við fimm mínútna ræður í 3. umr. Ég gleymdi því sem hv. þingmaður var að tala um í byrjun ræðunnar þegar ég var kominn til baka, en lok ræðunnar voru einmitt mjög áhugaverð, sérstaklega varðandi raunverulega eigendur. Við erum að glíma við hluthafa sem eru tiltölulega óaðgengilegir. Einu sinni á ári erum við að uppfæra hluthafaskrána, yfirleitt út frá ársreikningum, en við vitum inni á milli ekkert hverjir eru að flakka á milli félaga, einhvers staðar verða þeir svo sem að enda með peningana sína þegar allt kemur til alls. Þær tilfærslur geta alveg skipt máli, sérstaklega þegar kemur síðan að hluthafafundum. Félögin eru svo sem með meiri aðgang að þessu en utanaðkomandi aðilar vilja kannski geta nálgast það hverjir eru að fara að mæta á þessa fundi með einhverjum fyrirvara og þá ætti sá aðgangur að vera fyrir alla. Við erum eins og er með opinn aðgang að fyrirtækjaskrá og ársreikningaskrá. Ársreikningur birtist náttúrlega ekki fyrr en eftir aðalfundinn. En við erum ekki með opið aðgengi að hluthafaskrá og það er bara uppfært á eins árs fresti. Tengt þessu, þegar verið er að boða fundi og allt sem snýr að því: Er ekki nauðsynlegt að við lögum aðgengið að hluthafaskránni bara upp á gagnsæið að gera? Líka fyrir smærri hluthafa, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson var að benda á, að frumvarpið væri dálítið að ganga á aðgengi þeirra.