Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:26]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir ræðuna sem var um margt áhugaverð. Nú hefur hann unnið, að mér skilst, í hinum rafræna heimi eða upplýsingaheimi sem forritari í tæknifyrirtæki og það sem situr svolítið í mér og tengist því sem hann fjallaði um í ræðu sinni eru þessi rafrænu skil sem fjallað er um í 7. gr. á ársreikningum og samstæðureikningum. Hérna er verið að nota rafræna tækni til að skila ársreikningum og samstæðureikningum til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur. Ég get ekki séð að með því að senda pdf-skjal í tölvupósti — það eru vissulega rafræn skil, það er verið að senda með tölvupósti en ég hefði haldið að rafræn skil á upplýsingum sem koma fram í ársreikningum og samstæðureikningum ættu að vera með þeim hætti að það væri hægt að nýta tæknina til að afla upplýsinga úr ársreikningum og samstæðureikningum um t.d. fjárfestingar, á hvaða sviðum fjárfestingarnar eru, til upplýsingar fyrir stjórnvöld til að hjálpa þeim í hagstjórninni, nota rafræn skil til þess að þau verði til gagns í upplýsingabyltingunni. Upplýsingabyltingin er ákveðin bylting, bylting um hvað? Upplýsingar. Ég get ekki séð að við séum miklu betur sett með því að það sé verið að skila inn ársreikningum og samstæðureikningum rafrænt frekar en á pappír. Jú, það sparar tíma því að með pdf þurfa starfsmenn ekki að skanna þetta inn, þeir fá þetta á pdf inn í ársreikningaskrá, sem er mjög gott, en við erum ekki að gera neitt meira. Það er ekki verið að gera neitt meira. Jú, það þarf ekki að skanna, en það er ekki verið að nýta sér tæknina til hlítar. Það væri fróðlegt að heyra álit hv. þingmanns á þessu.