Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það er kalt úti núna. Á vef Ríkisútvarpsins var frétt í morgun undir fyrirsögninni: Hafa ekki lengt opnunartíma gistiskýla í frostinu fram undan. Og þar segir, með leyfi forseta: „Reykjavíkurborg hefur ekki ákveðið hvort gistiskýli og önnur úrræði sem standa heimilislausu fólki til boða verða opin lengur í frostinu mikla sem er fram undan.“

Í fréttinni segir síðan: „Mikið frost er í kortunum alla vikuna. Spáð er 10–15 stiga frosti í höfuðborginni um helgina.“ Þetta er auðvitað ótrúleg staða sem þeir sem höllustum fæti standa finna sig í í þessu góða samfélagi okkar. Þessi skilaboð berast til okkar skömmu eftir að fréttir berast af því að Reykjavíkurborg og ríkið hafi gert samning um móttöku 1.500 flóttamanna á næsta ári. Ég ætla ekki að fara út í það efnisatriði hér, en bara til að tengja hagsmunina og það sem er undir þá er þetta aumingja fólk sem á hvergi höfði sínu að halla í þeirri stöðu núna að það er fimbulkuldi fram undan og svörin sem berast eru einhvers lags embættismannakerfissvör. Og sýnu verri virðist staða útigangskarla vera heldur en útigangskvenna og er hún ekki góð. Það er auðvitað nöturlegt, svo ekki sé meira sagt, að stjórnvöld, hvorum megin Vonarstrætisins sem þau sitja, hér í Alþingi eða í Ráðhúsinu, finni ekki lausn á vanda þessa veikasta hóps okkar samfélags. Ekki er kostnaðurinn hár. Það er, eins og ég segi, nöturlegt að skilaboðin séu þau að þessi hópur geti um helgina þá helst étið það sem úti frýs, að því er virðist vera ef lesið er í skilaboð stjórnvalda.