Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það kemur mér ekki á óvart að þingmaðurinn sé í raun orðlaus við 2. umr. hér vegna þess að umræðan úti í samfélaginu, í boði hæstv. dómsmálaráðherra og skoðanasystkina hans, hefur verið mjög villandi. Það hefur líka komið fram hér í dag að vandinn sé slíkur að það verði að bregðast við. En staðan er sú að þetta frumvarp er ekkert að fara að bregðast við því verkefni sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við erum einfaldlega á þeim stað að það er fordæmalaus fjöldi fólks á flótta. Yfir 80% þeirra sem hingað hafa komið og leitað verndar koma frá þessum tveimur ríkjum sem íslensk stjórnvöld hafa metið að séu ekki örugg og því beri að veita því fólki vernd eða einhvers konar leyfi til dvalar. Þá erum við með pínulítinn hluta af þessum umsækjendum sem kemur frá öðrum ríkjum og hluti þeirra er líka frá ríkjum sem eru alls ekki örugg, eins og Palestínu til dæmis. Það er ekki öruggt að búa í Palestínu. Eða Sýrland, það er líka viðurkennt ríki, fólk þaðan á að fá vernd á Íslandi. Ég ítreka: Tilhæfulausar umsóknir á Íslandi á síðasta ári voru níu af 4.500 umsóknum. Níu! Þetta frumvarp er til þess að bregðast við því.