Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Áform hæstv. forsætisráðherra um sérstaka aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu og það að senda okkur þingmenn og opinbera starfsmenn, helst alla, á sérstakt námskeið í þeim efnum hefur vakið nokkra athygli síðustu daga og viku. Sérstaklega er þetta orðið athyglisvert í því ljósi að formaður stærsta stjórnarflokksins hefur lýst því yfir að hann sjái nú lítið vit í þessum æfingum hæstv. forsætisráðherra. En ástæða þess að ég nefni þetta hér í dag er að inn í samráðsgátt stjórnvalda er búið að birta drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026, þannig að menn sem hafa þörf fyrir slíkt orðalag þurfa að halda í sér til ársins 2027 sem er einmitt sá sami tími og ríkissjóður á að verða hallalaus, þannig að það er langt í það.

Mig langar að vekja athygli á þessari þingsályktunartillögu frá forsætisráðherra sem nú liggur inni í samráðsgátt þar sem lagt er til að sérstakur framkvæmdasjóður verði stofnaður vegna hatursorðræðu og í hann fari tugir milljóna króna á ári. Sérstök vitundarvakningarherferð verði fjármögnuð úr ríkissjóði. Þar á að setja 15 milljónir á ári. Það verða netnámskeið gegn hatursorðræðu og undir það fellur m.a. fræðsla gegn hatursorðræðu fyrir kjörna fulltrúa starfsfólks sveitarfélaga. Ég veit ekki hvað hin ágæta kona sem svarar símanum á skrifstofu Borgarbyggðar hefur sérstaklega að gera á námskeið sem þetta, ég held að hæstv. forsætisráðherra sé komin út í mýri hvað þetta mál varðar. Það heyrðist nú kannski best í viðtali við forsætisráðherra á Bylgjunni fyrir rétt um viku síðan þar sem virtist skína í gegn að ráðherrann teldi vanta allar skilgreiningar á hugtakinu og hann þyrfti sennilega sjálfur að fara á námskeið til að átta sig á hvað þar um ræddi. Ég vil hvetja ríkisstjórnina sameiginlega til að stíga nokkur skref til baka í þessum efnum og láta gott við sitja og draga til baka þessar vangaveltur um að (Forseti hringir.) senda alla opinbera starfsmenn eða þjóna, kjörna eða ráðna, á sérstakt námskeið um hatursorðræðu.