Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég fékk 30 mínútur til að flytja framsöguræðu mína hér í gær þar sem ég er framsögumaður nefndarálits 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Mér dugðu ekki þessar 30 mínútur til að gera grein fyrir nefndaráliti mínu þannig að ég ætla bara að halda áfram þar sem ég stoppaði í ræðu minni í gær.

Ég var komin að þeim þætti í nefndarálitinu þar sem ég var að fjalla um áhrif frumvarpsins sem við erum að ræða hér á skilvirkni í málsmeðferð og málshraða. Það er nefnilega svo að skilvirkni og aukinn málshraði eru meint markmið þessa frumvarps. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að mörg ákvæði frumvarpsins vinni akkúrat í öfuga átt; muni minnka skilvirkni og lengja málsmeðferð í mörgum málum og alls ekki auka málshraða.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga, nr. 80/2016, var sett til að auka skilvirkni og tryggja málshraða. Breytingin var gerð í kjölfar fjölmargra mála þar sem fólk hafði dvalið hér á landi svo að árum skipti án þess að niðurstaða fengist um það hvort málið skyldi yfir höfuð tekið til efnismeðferðar hér á landi, þ.e. hvort umsókn viðkomandi um alþjóðlega vernd skyldi skoðuð eða henni vísað frá á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða vegna þess að viðkomandi hefði þegar verið veitt vernd í öðru ríki. Þá höfðu þó nokkuð mörg mál vakið reiði í samfélaginu þar sem til stóð að flytja úr landi fólk, jafnvel börn, oft börn, sem skotið hafði rótum hér á landi eftir margra ára dvöl, vegna dráttar á málsmeðferð stjórnvalda. Það er rangt sem kom fram í ræðu áðan hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að það sé almennt vegna tafa af völdum umsækjenda sem mál tefjast umfram 12 mánuði. Það er alrangt öllu heldur. Það er mjög sjaldgæft að fallist sé á að einstaklingur hafi tafið mál sitt, enda er það svo að málsmeðferðartími í þessum málum hefur verið að lengjast á undanförnum árum. Reyndar voru fjölmörg mál sem fóru umfram þennan tíma vegna erfiðleika við að flytja fólk úr landi vegna heimsfaraldurs Covid-19, sem hafði að sjálfsögðu ekkert með umsækjendur að gera og er ekki við umsækjendur að sakast.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga fól í sér mikla réttarbót, líkt og fram kemur í umsögn Rauða krossins á Íslandi við frumvarp það sem varð að lögum nr. 80/2016, þar sem loku var skotið fyrir það að stjórnvöld tækju mörg ár í að komast að niðurstöðu um hvort umsókn skyldi yfir höfuð skoðuð hér á landi eða ekki. Því hefur verið haldið fram af hálfu dómsmálaráðuneytisins að með núgildandi ákvæðum sé fyrirkomulagið þannig að ef 12 mánuðir líða án þess að umsækjandi sé fluttur úr landi í kjölfar þess að umsókn hans er vísað frá eigi umsækjandi rétt á endurupptöku sem leiði til þess að málið fari annan hring í kerfinu. Með því að skerða rétt einstaklings til efnismeðferðar með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu sé kerfið þannig einfaldað og skilvirkni aukin. Þetta er rangt. Mál sem tekið er til efnismeðferðar vegna dráttar á málsmeðferð fer ekki annan hring, heldur þýðir það einfaldlega að viðkomandi umsækjandi fær áheyrn hér á landi í stað þess að umsókninni sé vísað frá. Það er í öllum tilvikum umsækjanda í hag og eykur ekki flækjustig, líkt og látið hefur verið í veðri vaka. Það er því um verulega réttindaskerðingu að ræða fyrir fólk á flótta í því frumvarpi sem við erum að ræða hér.

Í þessu samhengi hef ég mjög gaman af því að benda á ákvæði 47. gr. núgildandi laga um útlendinga sem heimilar stjórnvöldum að viðurkenna vernd sem annað ríki hefur veitt umsækjanda — tökum Grikkland sem dæmi — án nýrrar málsmeðferðar. Til að bæta skilvirkni væri stjórnvöldum þannig í lófa lagið að veita viðkomandi einfaldlega vernd eftir að ákveðið hefur verið að málið skuli tekið til efnismeðferðar, svo sem vegna þess að tafir umfram 12 mánuði hafi átt sér stað án frekari málsmeðferðar, þegar um er að ræða einstakling sem fengið hefur rétt sinn til alþjóðlegrar verndar viðurkenndan í öðru ríki. Engin þörf er á lagabreytingum til að bæta skilvirkni verulega með þessum hætti. Ég hef raunar reynt í mínum fyrri störfum sem lögmaður að fara fram á þetta fyrir kærunefnd útlendingamála sem hafnaði kröfunni með þeim orðum einfaldlega að þeim bæri ekki skylda til þess. Engin rök voru færð fyrir því hvers vegna þau teldu samt ekki ástæðu til að gera það fyrst það er svona hræðilegt að málið fari annan hring í kerfinu. Það kom eilítið á óvart. En ég held áfram að benda á þetta ákvæði í framkvæmd sem dæmi um það hvernig er hægt að bæta skilvirknina hérna til muna án þess að breyta lögum.

Þá langar mig að víkja örstutt að sviptingu réttinda að 30 dögum liðnum sem er í b-lið 1. gr. og í 6. gr. frumvarpsins. Samkvæmt 33. gr. núgildandi laga um útlendinga skal umsækjanda um alþjóðlega vernd standa til boða húsnæði, framfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta. Sérstakt tillit skal tekið til þeirra sem hafa sérþarfir eða þurfa sérstaka aðstoð. Fram hefur komið að framfærsla samkvæmt þessu ákvæði er almennt 8.000 kr. á viku fyrir fyrsta fjölskyldumeðlim og 5.000 kr. fyrir hvern þann sem kemur á eftir, húsnæði, sem er óskilgreint í lögunum en það er gjarnan húsnæði sem deilt er með öðrum og óskyldum aðilum, og einungis heilbrigðisþjónusta sem talin er nauðsynleg og ekki þola bið. Sá fyrirvari skal gerður hér að einhver munur er á veittri þjónustu eftir því hvaða aðili hefur umsjón með henni. Skv. 7. mgr. 33. gr. núgildandi laga skulu úrræði önnur en nauðsynleg heilbrigðisþjónusta að jafnaði ekki veitt ef viðkomandi umsækjandi hefur nægileg fjárráð til að bera kostnað af þeim sjálfur. Ef í ljós kemur að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi ekki haft þörf fyrir þá þjónustu sem veitt var getur það stjórnvald sem fer með þjónustuna krafið hann um endurgreiðslu kostnaðar að fullu eða nokkru leyti. Þetta er í núgildandi lögum.

Með 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 33. gr. laganna þess efnis að fólk verði svipt þessari lágmarksaðstoð að 30 dögum liðnum eftir endanlega synjun á stjórnsýslustigi. Undanþegin þjónustuskerðingunni skulu vera börn, foreldrar eða umsjónarmenn þeirra og ættingjar, barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir.

Af lestri greinargerðar og við umfjöllun um ákvæði þetta í allsherjar- og menntamálanefnd er augljóst að tilgangur ákvæðisins er sá að beita fólk þrýstingi til að það komi sér sjálft úr landi í kjölfar synjunar. Við spurningum nefndarmanna um mat á samfélagslegum áhrifum þess að fjölga heimilislausu fólk í örbirgð hér á landi var fátt um svör önnur en þau að þessir einstaklingar gætu sjálfir komið sér úr landi. Undir meðferð málsins í nefndinni var ítrekað reynt að fá skýr svör eða gögn um afleiðingar þjónustusviptingar samkvæmt tillögunni, án árangurs. Enn er í fyrsta lagi óljóst hvaða réttindi einstaklingar, sem sviptir verða þjónustu samkvæmt ákvæðinu, munu hafa, hvort í þjónustusviptingunni felist í reynd nokkur sparnaður fyrir ríkissjóð og hverjar afleiðingarnar verða að öðru leyti. Það virðist engin hugsun hvíla að baki tillögunni önnur en sú að fólk skuli koma sér af landi brott í kjölfar synjunar. Er ljóst að ákvæðið er bæði illa ígrundað, hroðvirknislega unnið og framkvæmdin með öllu óútfærð. Þá eru að mínu mati forsendurnar fyrir því að undanþáguákvæðinu verði beitt í hag þeirra sem sýna samstarfsvilja, svo sem lýst hefur verið yfir, afar hæpnar. Dæmi eru um að fólk dvelji hér á landi sem hefur um árabil reynt að sýna stjórnvöldum fram á að það geti ekki útvegað sér ferðaskilríki eða sé jafnvel ekki ríkisborgarar í því ríki sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að senda viðkomandi til. Persónulega þekki ég fleiri en eitt dæmi um þetta. Með ákvæðinu er Útlendingastofnun í sjálfsvald sett að meta hvort einstaklingur hafi tök á að afla skilríkja eða ekki, án nokkurra takmarkana. Ásamt nýrri skilgreiningu á umsækjendum um alþjóðlega vernd í b-lið 1. gr. frumvarpsins, auk nýrrar heimilda Útlendingastofnunar til þess að vísa fólki þangað sem stofnuninni dettur í hug með ákvörðun, samanber b-lið 8. gr. frumvarpsins, má ljóst vera að breyting sú sem lögð er til með 6. gr. frumvarpsins myndi skapa mun fleiri vandamál en hún nokkurn tíma leysir fyrir stjórnvöld, fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og íslenskt samfélag í heild. Að öllu framansögðu leggst ég alfarið gegn þessari óþörfu og illa ígrunduðu aðför að mannréttindum og mannvirðingu einstaklinga á flótta.

Að lokum ætla ég að víkja að b-lið 8. gr. sem fjallar um öruggt þriðja ríki sem er hugtak í flóttamannarétti. Í umræðu um þetta ákvæði er gjarnan ranglega talað um fyrsta griðland en þetta ákvæði snýst ekki um fyrsta griðland. Fyrsta griðland er viðmið sem gengur út á það að fólk leiti verndar í fyrsta landinu sem það kemur til á sínum flótta. Þarna er ekkert verið að tala um það. Þarna getum við verið að tala um land sem viðkomandi einstaklingur hefur bara aldrei komið til og jafnvel er ekki með heimild til komu eða dvalar. Í þessum b-lið. 8. gr. frumvarpsins er lagt til að stjórnvöldum verði veitt ný heimild til að vísa frá umsókn um alþjóðlega vernd og vísa einstaklingi úr landi hafi viðkomandi slík tengsl við annað ríki að Útlendingastofnun þyki eðlilegt og sanngjarnt að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Svo sem staðfest var undir meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd af hálfu lögreglu og annarra aðila eru slíkar ákvarðanir iðulega óframkvæmanlegar þar eð stjórnvöld geta ekki flutt fólk nauðungarflutningum til annarra landa eftir geðþótta. Til að hægt sé að flytja fólk nauðugt á milli landa þarf viðkomandi einstaklingur annaðhvort að hafa gilda heimild til komu og dvalar í móttökuríkinu eða viðkomandi ríki þarf að samþykkja móttöku hans með öðrum hætti, svo sem með samningum milli ríkjanna eða samkomulagi. Það hefur líka komið fram í umræðum um þetta mál að við erum ekki með samninga við tiltekin ríki í Mið- og Suður-Ameríku sem Útlendingastofnun langar svakalega mikið að byrja að senda fólk til sem leitar hingað frá Venesúela af því að Útlendingastofnun finnst sanngjarnt og eðlilegt að þau fari þangað því að þau eiga ættingja þar eða maka eða maður veit svo sem ekki hvað. Þetta er ekki hægt samkvæmt núgildandi lögum en samkvæmt þessum breytingartillögum þá verður það hægt. Það verður hægt að taka ákvörðun um að þú eigir að fara til Chile frekar en að vera á Íslandi. Þetta er óháð því hvort þú hafir heimild til komu eða dvalar í Chile og það eru engir samningar til um að taka á móti fólki í þessari stöðu, þannig að hvað getum við gert? Jú, breyting þessi er lögð til í samfloti við breytinguna sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins um sviptingu þjónustu að liðnum 30 dögum frá endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi. Eina leiðin til að framfylgja slíkri ákvörðun væri að viðkomandi umsækjandi tæki ákvörðun um að fara sjálfur úr landi.

Þessar tillögur eru byggðar á þeim misskilningi að ástæða þess að einstaklingar fari ekki úr landi í kjölfar synjunar um alþjóðlega vernd sé að einhverju leyti sú þjónusta sem þeim er veitt hér á landi en reynslan sýnir að því fer fjarri. Þessi þjónusta er ekki mikil. Þetta er lágmarksaðstoð, þetta er ekki þjónusta. Þetta er ekki staða sem nein manneskju óskar sér að vera í til lengri tíma, réttindalaus í herbergi með ókunnugu fólki og að láta draga úr sér tönnina ef maður fær tannpínu. Nei, það er ekki þess vegna. Fólk sem fer ekki úr landi í kjölfar synjunar fer ekki úr landi vegna þess að það telur sér ekki vært í því ríki sem því er vísað til. Sú breyting sem lögð er til í þessum b-lið, 8. gr. frumvarpsins er að mínu mati enn eitt dæmið um hversu óvandað og illa ígrundað frumvarpið er.

Að lokum, og ég næ ekki að klára en ég vona að þessi punktur komist alla vega til skila, segir í 6. kafla greinargerðar með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á einstaklinga eftir kyni og muni því hvorki hafa áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.“

Að mínu mati er með frumvarpinu farið á mis við margvísleg tækifæri til umbóta. Til að mynda má nefna að þrátt fyrir lögfestingu Istanbúl-samningsins á Íslandi árið 2018 hefur skort mjög á að samningnum sé fylgt í framkvæmd hér á landi. Istanbúl-samningurinn er alþjóðlegur samningur um forvarnir og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi en í honum er sérstakt ákvæði um kynbundnar hælisumsóknir. Segir þar að aðildarríkjum samningsins beri að tryggja að kynbundið ofbeldi teljist til ofsókna í skilningi samnings um réttarstöðu flóttamanna og að kynjasjónarmiða sé gætt í móttöku og umsóknarferlum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Samkvæmt niðurstöðum nýútkominnar meistararitgerðar í lögfræði virðist sem íslensk stjórnvöld líti ekki svo á að ákvæði Istanbúl-samningsins gildir um konur á flótta. Þá vil ég nefna 6. gr. frumvarpsins um þjónustusviptingu sem undanskilur ekki konur en það er alveg ljóst að konur eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu (Forseti hringir.) þegar þær eru heimilislausar. Helsta afleiðing heimilisleysis er öryggisleysi fyrir utanaðkomandi ógn og ofbeldi. (Forseti hringir.) Er því með öllu ótækt að ekki hafi verið tekin sérstök afstaða til þessa við vinnslu frumvarpsins.