Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að halda áfram á þessu róli. Þetta vakti athygli mína sem sérstaks áhugamanns um 6. gr. greinargerða frumvarpa ríkisstjórnarinnar sem lyktar oft af undanslætti, ég leyfi mér að orða það svo varlega. Mér þótti athyglisvert að frumvarpinu skoðuðu, og í ljósi þessara undanþáguákvæða sem eru tilgreind í því, þetta mat þess ráðherra sem leggur málið fram, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á einstaklinga eftir kyni og muni því hvorki hafa áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.“

Að undanþáguhlutanum skoðuðum finnst mér blasa við að þetta sé bara ekki rétt. Þá er ég ekki að ræða það hvort æskilegt sé að hingað komi í miklu magni einhleypir karlmenn, það er bara önnur umræða. En eins og svo oft áður þá skautar 6. gr. greinargerða frumvarpa stjórnvalda, um mat á áhrifum, algjörlega fram hjá því sem þykir óþægilegt að tala um. Það er áhugavert ef í þessu tilviki þótti óþægilegt að draga það sérstaklega fram að þeir sem helst yrðu fyrir áhrifum af breyttri lagasetningu, þannig að horfa mætti á það með neikvæðum hætti eða út frá takmörkun réttinda, væru karlmenn en ekki konur.

Man hv. þingmaður eftir viðlíka dæmum þar sem annað kynið fer heldur (Forseti hringir.) verr út úr lagasetningu án þess að ástæða sé talin til að nefna það sérstaklega þegar kemur að mati á áhrifum frumvarps?