Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það er nú ekki alltaf bongóblíða á Íslandi. Því er þeim mun leiðinlegra að loksins þegar við fáum fallegt veður, logn, sól og þetta „krispí“ loft sem fylgir fallegum vetrardegi, þá þurfum við að halda börnunum okkar inni af því að bílarnir okkar eru búnir að spúa eitri út í loftið, sem rokrassgatið losar okkur yfirleitt við en situr yfir byggðinni á þessum fallegustu, bestu útivistardögum ársins. Á þetta hefur ítrekað verið bent undanfarið vegna þess að það er búið að þverbrjóta viðmið stjórnvalda um það hversu oft megi fara yfir viðmið um styrk köfnunarefnisdíoxíðs í lofti. Þau mörk voru rofin bara á fyrstu viku ársins og hafa síðan verið ferfalt eða fimmfalt rofin.

Hvað gera stjórnvöld? Hæstv. umhverfisráðherra lætur standa sig að makalausum málflutningi þar sem hann er spurður: Hvað ætlar þú að gera? Eins og öll dýrin sem litla gula hænan bað um að aðstoða sig, segir hann: Ekki ég, ekki ég. Hann bendir bara á sveitarfélögin og segir að þau geti skipt strætóum út fyrir rafmagnsvagna eins og losun 100 strætóa skipti öllu í þessu samhengi. Því fer fjarri.

Mig langar að nefna lexíu sem umhverfis- og samgöngunefnd fékk hjá kollegum okkar í Bretlandi þar sem samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti hafa bundist böndum um að standa með eigin stefnu varðandi loftgæði, hafa sett saman hóp milli ráðuneytanna sem vinnur með sveitarfélögum til að ná lausnum í þágu almennings og heilbrigðis. Það væri nær að hæstv. ráðherra gerði eitthvað þessu líkt (Forseti hringir.) frekar en að láta eins og svínið, hundurinn og kýrnar í litlu gulu hænunni sem ekkert vildu gera annað en að láta aðra bera ábyrgðina.