Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

aðgerðir gegn verðbólgu.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Að sjálfsögðu get ég ekki tekið undir síðustu orð hv. þingmanns og það nægir bara að rifja upp allt það sem ég hef sagt hér í dag og margoft áður um það hvernig þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað því að verja tekjulægstu hópanna. Þessi ríkisstjórn hækkaði fjármagnstekjuskatt, við skulum ekki gleyma því. Það var þessi ríkisstjórn sem innleiddi þrepaskipt skattkerfi.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns — ég skil vel að hann lýsi vonbrigðum sínum yfir töfum á þeirri vinnu sem varðar þau sem eingöngu hafa fjármagnstekjur og greiða þar af leiðandi ekki útsvar — eru þær skýringar sem ég hef fengið frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að sú vinna hafi tekið lengri tíma en menn hefðu séð fram og það sé erfitt að greina hópinn. En ég get fullvissað hv. þingmann um það að ég lít á þetta sem mjög mikilvægt mál, mál sem verður að klárast, ekki vegna þess endilega að það hafi örlagaáhrif fyrir stöðu ríkissjóðs heldur af því að þetta er réttlætismál. Ég vona bara að hv. þingmaður styðji ríkisstjórnina í því að koma þessu máli áfram. Það er leitt að það hafi tafist, en áfram er unnið að verkefninu.