Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Þegar ég steig niður úr ræðustóli rétt áðan þá var ég að halda áfram með umfjöllun mína um þetta frumvarp og ætlaði að lýsa í nokkuð skýru máli um hvað það snýst raunverulega. Ég var komin að 2. gr. laganna sem snýst um ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. Ég ætla aðeins útskýra hvers konar mál við erum að tala um þar. Þar erum við að tala um í rauninni umsókn um hæli sem er vísað frá af hálfu Útlendingastofnunar, annaðhvort vegna þess að t.d. annað ríki Evrópusambandsins ber ábyrgð á meðferð umsóknarinnar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða einstaklingi hefur verið veitt vernd í öðru ríki.

Í þessum tilvikum, þegar Útlendingastofnun tekur ákvörðun um að vísa umsókn frá af þessum sökum, þá er hér lagt til að sú ákvörðun kærist sjálfkrafa til kærunefndar útlendingamála. Í dag er það þannig að kærufrestur er 15 dagar, sem er mjög stutt. Almennt í stjórnsýslunni er kærufrestur ákvarðana stjórnvalda þrír mánuðir, þannig að búið er að stytta kærufrest ansi mikið í þessum málum til þess einmitt að reyna að tryggja skjóta málsmeðferð.

En hér er sem sagt lagt til, í þessu frumvarpi, að mál af þessu tagi kærist sjálfkrafa til kærunefndar útlendingamála, sem hljómar kannski við fyrstu sýn ekkert endilega slæmt fyrir umsækjanda. Það er auðvitað mjög erfitt að sjá hvernig þetta á að auka skilvirkni í kerfinu þar sem það er ljóst að það yrðu þá kærðar ákvarðanir þar sem umsækjandi var sáttur við að fara til Svíþjóðar eða eitthvað, það kemur alveg fyrir. Það kemur fyrir að fólk leitar hingað til lands og hafði ekki hugmynd um Dyflinnarreglugerðina og þegar því er sagt að það sé með vegabréfsáritun til Þýskalands og eigi að fara þangað þá kemur fyrir að fólk segi bara: Nú, ó, afsakið. En sú ákvörðun yrði þá samt sem áður sjálfkrafa kærð til kærunefndarinnar þannig að kærunefnd útlendingamála er að fara að vinna væntanlega einhverja tugi mála á ári sem enginn óskaði eftir, enginn bað um. Þetta á að heita skilvirkni í hugum frumvarpshöfunda.

Þetta ákvæði hefur samt verið gagnrýnt af hálfu þeirra sem vilja gæta réttinda umsækjenda. Það varðar kannski ekki síst seinni lið þessa ákvæðis sem kveður á um það í lögum að greinargerð vegna kærunnar skuli berast kærunefndinni innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar. Í upphaflegri útgáfu þessa frumvarps var talað um að ef greinargerðin bærist ekki innan 14 daga þá yrði málið hreinlega fellt niður, sem er auðvitað augljóst brot á réttindum umsækjenda og veruleg skerðing á hagsmunum umsækjenda sem er sannarlega ekki áhyggjuefni af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra. Það er bara svoleiðis með þessu frumvarpi. Hins vegar var fallið frá því að málið falli sjálfkrafa niður ef kæra berst ekki innan 14 daga en það er samt þannig orðað í lögunum að greinargerð skuli berast innan 14 daga. Því hefur verið svarað til að sannarlega hvíli rannsóknarskylda á kærunefndinni og að hún muni sannarlega sinna þeirri rannsóknarskyldu og taka við þeim gögnum sem berast eftir þann tíma. Þrátt fyrir allt þetta hefur m.a. Rauði krossinn á Íslandi gert ákveðnar athugasemdir við þetta ákvæði þar sem það er verið að stytta í reynd þann tíma sem kærandi hefur til þess að undirbúa mál sitt frá því sem nú er.

Í dag er það þannig að kærufresturinn, fimmtán dagarnir, er gjarnan notaður til að afla gagna sem Útlendingastofnun hefur neitað að afla. Þetta varðar t.d. heilbrigðisástand, getur varðað sérstaklega andlegt ástand og annað. Mörg dæmi eru um að Útlendingastofnun sé beðin um að bíða með ákvörðun á meðan beðið er eftir þeim gögnum og þá eru staðfestingar frá heilbrigðisyfirvöldum um að gögnin muni berast eftir þrjár vikur, fjórar vikur, maður veit það ekki, tvær, eina, og Útlendingastofnun segir bara að hún ætli ekki að bíða eftir þessum gögnum og tekur ákvörðun. Og hvað gerir umsækjandi þá? Hann þarf að kæra til kærunefndar, en hann þarf að afla þessara gagna vegna þess að þau eru lykilgögn í málinu, vegna þess að það er þannig í lögunum að ef sérstakar ástæður mæla með því þá á mál að vera afgreitt hér á landi, þá skal því ekki vísað frá og það hljóta að vera sérstakar ástæður ef fólk glímir við alvarlegan heilsufarsvanda, þannig að þetta eru lykilgögn í málinu. Hingað til hafa umsækjendur nýtt þennan kærufrest til að afla þessara gagna en þarna er verið að stytta hann niður í 0, enginn kærufrestur, og 14 daga greinargerðarfrestur — í dag eru sjö virkir dagar greinargerðarfrestur. Það er verið að stytta tímann. (Forseti hringir.) Afsakaðu, herra forseti. Ég verð að fá að halda áfram með mál mitt í næstu ræðu og óska eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.