Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Þar sem þetta er orðið slitrótt þá langar mig að minna fólk á að ég var að ræða það hvað felst í þinglegu ferli máls. Ég tók dæmi um það hvernig umdeilt mál var í vor tekið í gegnum þingið þar sem nefndin hlustaði á umsagnir og vann saman í því að finna lausnir.

Síðan kemur þetta ákveðna mál sem við erum að ræða hér í dag, frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Það er alveg með ólíkindum hvað þetta frumvarp fer allt öðruvísi í gegnum þingið heldur en mörg af þeim umdeildu en samt mikilvægu málum sem eru að koma hingað inn. Stærsti munurinn er sá, að það er greinilega búið að ákveða áður en þetta mál fer inn í þingið að það megi ekki gera neinar breytingar á neinu — ekki neitt. Það sést greinilega í meðförum þingsins á þessu máli og maður spyr sig hvað liggi þar að baki. Kannski fer ég inn í það í næstu ræðu.

Mig langar að fjalla um hvernig þetta mál kom inn. Það fer í 1. umr. þar sem er mikil umræða og margar athugasemdir gerðar við málið frá öllum flokkum. Ráðherra tekur smá þátt í umræðunum til að byrja með en er svo ekki með í að klára málið. Málið fer inn í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem fer í gang eitthvert sýndarsamráð, því þrátt fyrir ótrúlega marga gesti og óvenjulega margar umsagnir þá var alveg sama hvað var sagt. Ef einhver hefði komið þarna inn og bent á að það væri kviknað í fyrir aftan hv. nefndarmenn þá hefði enginn hlaupið út eða reynt að slökkva eldinn vegna þess að það var búið að ákveða að hlusta ekki á neitt. Þá skipti ekki máli hvort það voru umsagnaraðilar eða fulltrúar minni hlutans, það var ekkert hlustað. Það sést best á nefndaráliti sem telur upp hverjir komu, en tekur svo ekki undir eina einustu umsögn og bendir ekki á neitt. Kaflinn um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar — nei, við þurfum ekkert að hlusta á það. Við erum ekkert að spyrja um það, jafnvel þótt ítrekað væri beðið um að fá úttekt á því hvort þessi hluti stæðist stjórnarskrá, mannréttindasáttmála og aðra sáttmála. Nei, það mátti ekki fara í neina skoðun á neinu, vegna þess að ef einhver þeirra úttekta hefði bent á að eitthvað þyrfti að laga þá virtist vera búið að brjóta eitthvert samkomulag milli stjórnarflokkanna um að þetta mál fengi að fara óbreytt í gegn. Meira að segja lét ráðherra hafa eftir sér nú í dag að það yrðu kannski einhverjar smá orðalagsbreytingar. Það er nú ágætt að hægt sé að laga það ef einhverjar villur eru í málfræði eða íslensku hérna inni.

En svo er málið afgreitt úr nefnd þrátt fyrir mikil mótmæli og þrátt fyrir að ekki sé búið að fá alla gesti; það er afgreitt úr nefnd af því að það á að þrýsta þessu í gegn fyrir jól. Þegar þau átta sig á því að það kemst ekki að fyrir jól, þá er það tekið fyrir í nefndavikunni og fleiri gestir kallaðir inn þrátt fyrir að það sé búið að afgreiða málið. En það skiptir ekki máli vegna þess að enn og aftur er ekki verið að hlusta á gestina.

Svo byrjum við hér í 2. umr. og reynum að benda á hlutina sem umsagnaraðilar benda á, hlutina sem voru búnir að koma fram við 1. umr. og þá sem búið var að nefna í nefndarstarfinu. En það er ekki einu sinni þannig að hv. þingmenn minni hlutans sitji og hlusti á athugasemdirnar, vegna þess að það má ekki breyta neinu. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma að samkomulaginu sem greinilega er í gangi í næstu ræðu og óska því eftir að vera bætt aftur á mælendaskrá.