Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Í þessu máli er einmitt verið að grauta saman verksviðum nokkurra ráðherra, mjög augljóslega hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi atvinnuréttindi, en einnig er að sjálfsögðu verið að huga að réttindum barna, sem koma þá bæði inn á verksvið forsætisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra. Það sem við upplifum hérna, þegar við reynum að fá sjónarhorn þeirra á þetta mál, af hverju dómsmálaráðherra er í raun að reka mál sem breytir lögum á þeirra verksviði, er að við fáum við engin svör.

Við fáum hins vegar ýmsar yfirlýsingar í fjölmiðlum sem stangast á. Ég átta mig ekki á því af hverju ráðherrarnir geta ekki komið hingað og útskýrt fyrir okkur mjög skýrt og greinilega og fyrir þjóðinni hvað er í raun og veru að gerast hérna. Ég upplifi þetta, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði, sem bara ákveðinn þykjustuleik. (Forseti hringir.) Þetta er sjónarspil sem er í gangi. Þau vilja ekki ræða efnisatriðin af því að það skiptir ekki máli lengur fyrir þau. Þau eru bara búin að sætta sig við að svona verður þetta, óháð því (Forseti hringir.) hvernig þetta verður framkvæmt, þetta er bara í algerri upplausn.