Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Hvers vegna finnst þingmönnum stjórnarmeirihlutans allt í lagi að senda flóttafólk á götuna á Íslandi um miðjan vetur? Hvers vegna? Ég hef ekki enn þá fengið svar við því annað en: Þau geta þá bara farið af götunni og á götuna í Grikklandi. Það er skýrasta svarið sem ég hef fengið við þessari endurteknu spurningu minni. Ég spurði þessarar spurningar í 1. umr. þessa máls og beindi spurningunni sérstaklega að þingmönnum VG sem höfðu þá, rétt eins og nú, tekið mjög lítinn þátt í umræðunni um þetta umdeilda mál, svo vægt sé til orða tekið. Ég fékk andsvar frá hv. þingflokksformanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á þeim tíma þegar ég spurði: Hvers vegna eru þingmenn Vinstri grænna til í að henda flóttafólki götuna? Þá spurði hann mig á móti hvort mér þætti ekki mikilvægt að það ríkti sátt um þennan málaflokk, málaflokk útlendinga. Þetta var sem sagt svar VG. Ég spyr: Hvers vegna viljið þið henda fólki á götuna? Hann spyr: Finnst þér ekki mikilvægt að það ríki sátt um að henda fólki á götuna? Ég svaraði því auðvitað til að það væri engin sátt um það af minni hálfu að brjóta á mannréttindum flóttafólks. Þetta mál snýst um það. Við erum ekki sátt við að það standi til að brjóta á mannréttindum flóttafólks.

Og hvers vegna segjum við það, virðulegi forseti? Mig langar að fjalla aðallega um tvö atriði í þessu frumvarpi, raunar þrjú ákvæði en tvö atriði, eitt samtengt. Í fyrsta lagi vil ég fjalla um mjög mikilvægt mál sem allir þingflokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn, kemur svo sem ekki á óvart, komu sér saman um að væri gríðarlega mikilvægt til þess að vernda mannréttindi barna á flótta 2017 og það var að setja tímamörk. Það var að setja tímamörk á það hversu lengi mál gætu verið í kerfinu áður en taka þyrfti ákvörðun um að taka þau til efnismeðferðar. Það sem að Útlendingastofnun gerir mjög reglulega er að segja: Heyrðu, þú átt ekki rétt á að við einu sinni skoðum hvort þú sért flóttamaður eða ekki vegna þess að þú ert búinn að fá vernd í einhverju öðru ríki, vegna þess að þú ert búinn að sækja um í einhverju öðru ríki eða vegna þess að við teljum þetta bersýnilega tilhæfulausa umsókn t.d. Þetta eru nokkur atriði sem þau geta borið fyrir sig þar sem þau neita að taka til skoðunar hvort viðkomandi einstaklingur sem hefur sótt um vernd á Íslandi eigi rétt á þessari vernd.

Þetta eru mál sem við könnumst vel við úr þjóðfélagsumræðunni þar sem fjölskyldur, börn, einstaklingar hafa verið og höfðu verið að velkjast um í kerfinu hér í fleiri ár án þess að fá einu sinni efnismeðferð, þ.e. fá það tekið til skoðunar hvort þau eigi rétt á því að hljóta vernd á Íslandi. Þannig höfum við séð fjölmörg dæmi um börn sem hafa bara gengið í skóla á Íslandi, um börn sem kunna íslensku best af öllu og eiga bara vini hér og þekkja ekkert annað, sem átti allt í einu að fara að vísa á götuna í Grikklandi eða eitthvert allt annað, á stað sem þau hafa aldrei kallað heimili sitt. Þessi mál könnumst við öll við. Þessi mál hafa skiljanlega vakið reiði og samkennd í samfélaginu. Það varð úr að það varð pólitísk sátt um að setja 12 mánaða tímamark á það hversu lengi kerfið gæti verið að ákveða sig hvort það ætlaði að taka mál til efnismeðferðar, taka til skoðunar hvort einhver ætti rétt á vernd. Þessi 12 mánaða regla var sett í mikilli sátt að Sjálfstæðisflokknum undanskildum og síðar var henni meira að segja breytt af ráðherra Sjálfstæðisflokksins til rýmkunar fyrir börn á flótta. Nú er búið að fenna svolítið yfir þetta, virðulegi forseti. Ég vona að ég sé að greina alveg rétt frá en nokkurn veginn svona var þetta. Þessi regla hefur virkað mjög vel og það er komin ágæt framkvæmd á það hvenær hún á við. Það er ákveðin undantekning á henni í núgildandi lögum sem snýr að því að ef þú ferð viljandi í felur og reynir að koma þér undan því að málsmeðferðin eigi sér stað og það er hægt að sýna fram á það — það eru alls konar svona undantekningar og það er búið að afmarka skýrt hvenær þær eiga við og það er komin ákveðin reynsla á það — þá geturðu ekki reitt þig á þessa 12 mánaða reglu.

En það sem stendur til að gera með þessu frumvarpi er í raun og sann að aftengja 12 mánaða regluna, þ.e. að gefa Útlendingastofnun nammipoka sem hún getur dregið upp úr alls konar ástæður og sagt: Nei, það er þér að kenna, kæri umsækjandi, eða ekki kæri, að þú færð ekki efnismeðferð. Þú getur bara sjálfum þér um kennt og við getum haldið áfram að leyfa þér að dúsa í von og ótta um hvort þú fáir efnismeðferð einhvern tíma.

Afleiðingin af þessari breytingu, virðulegi forseti, verði þetta ófremdarfrumvarp samþykkt, mun koma í ljós með mikilli fjölgun mála þar sem börnum sem hafa verið hér í fleiri ár er synjað um efnismeðferð og vísað út á guð og gaddinn þrátt fyrir að þau þekki ekkert nema Ísland og hafi aldrei verið í skóla annars staðar en á Íslandi og hafi jafnvel fæðst á Íslandi og alltaf verið hér. Þessi mál þekkjum við öll og þessum málum á eftir að fjölga allverulega verði þetta frumvarp samþykkt. Ég hef ekki enn þá fengið fullnægjandi skýringar á því frá stjórnarliðum hvers vegna þau vilja fjölga þessum málum, hvers vegna þau vilja fjölga börnum í íslenska kerfinu sem hafa í raun enga stöðu, engin réttindi og er svo vísað úr landi brott eftir margra ára dvöl hér á landi. Engar skýringar á því.

En mér finnst skýringin augljós, virðulegi forseti. Mér finnst skýringin mjög augljós. Það fer í taugarnar á og það truflar stjórnvöld, þessa ríkisstjórn, Útlendingastofnun, að geta ekki farið svona með fólk, að það séu einhverjar hömlur á því hversu lengi þau geta dregið að taka ákvörðun í málum eins og þessu. Þau vilja losna við þennan sterka hvata sem hefur verið í lögunum um að klára málsmeðferð á viðunandi tíma og taka ákvörðun um — og þetta er bara spurning um að taka ákvörðun um hvort það eigi að taka mál til efnismeðferðar eða ekki.

Mér finnst mikilvægt að taka þetta sérstaklega fyrir vegna þess að í einhverri furðulegri nálgun á mannúð þá finnst hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur alltaf mikilvægast að tala um að henni finnist svo mikil mannúð í því fólgin að fólk fái svar við sínum beiðnum um hæli sem fyrst, að hröð málsmeðferð sé aðalatriðið þegar kemur að mannúð en ekki það að fólk fái að vera hérna eða fólk fái vernd eða að við sendum ekki fatlað fólk á götuna í Grikklandi, heldur að við fáum mjög fljótt úr því skorið að það skuli senda fatlað fólk á götuna í Grikklandi. Ég bendi á þetta einmitt til að benda á að þetta frumvarp gengur í þveröfuga átt við að hraða málsmeðferð þeirra. Þetta er að fara að lengja málsmeðferð, þetta er að fara að fjarlægja alla hvata í kerfinu til að hraða málsmeðferð. Meira að segja þessi skrýtna mannúðarnálgun hæstv. forsætisráðherra er ekki rétt. Það er ekki verið að bæta hraða á málsmeðferð með þessu frumvarpi, það er verið að gera hann verri. Það er verið að lengja málsmeðferð með flóknum og á köflum óskiljanlegum undantekningum og regluverki sem mun líklega taka mörg ár að greiða úr fyrir kærunefnd útlendingamála og jafnvel dómstólum. Ég vildi bara halda því vel til haga að þetta mál styttir ekki málsmeðferðartíma. Þetta mál mun lengja málsmeðferðartíma og fjölga börnum sem þekkja ekkert annað en Ísland sem verður svo vísað til t.d. Grikklands. Það er það sem þetta mál mun fela í sér.

Síðan er það upphaflega spurningin mín: Hvers vegna vilja stjórnarliðar fá heimild til að henda flóttafólki á götuna? Hvers vegna vilja stjórnarliðar fá heimild til að svipta flóttafólk rétt á allri heilbrigðisþjónustu? Hvers vegna vilja stjórnarliðar fá heimild til þess að taka af flóttafólki þær 8.000 kr. á einstakling sem það fær á viku til að draga fram lífið á Íslandi? Hvers vegna vilja þau það? Mér hefur orðið ljóst af málsmeðferð þessa máls og af yfirlýsingum, þeim fáu sem við þó finnum, stjórnarliða um þetta mál að tilgangurinn sé einfaldur: Það á að svelta fólk til að fara úr landi. Skítt með það hvað kemur fyrir þau í millitíðinni.

Hvers vegna segi ég þetta, virðulegi forseti? Ég segi þetta vegna tvenns og nú ætla ég að fá að vitna í nefndarálit 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, nefndarálit hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þar sem fjallað er um öruggt þriðja ríki á bls. 6, sem er b-liður 8. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í b-lið 8. gr. frumvarpsins er lagt til að stjórnvöldum verði veitt ný heimild“ — þetta er ný heimild í lögunum sem er verið að leggja til — „til þess að vísa frá umsókn um alþjóðlega vernd og vísa einstaklingi úr landi, hafi viðkomandi slík tengsl við annað ríki að Útlendingastofnun þyki eðlilegt og sanngjarnt að hann dvelji þar …“

Þannig að Útlendingastofnun þarf að finnast eðlilegt og sanngjarnt að einhver útlendingur sem kemur hingað og sækir um vernd sé einhvers staðar annars staðar en hér. Mín upplifun af Útlendingastofnun og þeirra málsmeðferð er að þeim finnst almennt eðlilegt og sanngjarnt að flóttamenn búi annars staðar en á Íslandi. En það er kannski bara mín skoðun. Lögin segja samt að þetta sé greinilega huglægt mat Útlendingastofnunar á því hvað sé eðlilegt og sanngjarnt og þeim finnist eðlilegt og sanngjarnt af einhver umsækjandi um alþjóðlega vernd dvelst í einhverju öðru landi. Ókei, hver eru skilyrðin fyrir því að Útlendingastofnun geti komist að þessari niðurstöðu? Nú held ég áfram með tilvitnunina, með leyfi forseta:

„Svo sem staðfest var við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd eru slíkar ákvarðanir iðulega óframkvæmanlegar þar eð stjórnvöld geta ekki flutt fólk nauðungarflutningum til annarra landa eftir geðþótta. Til þess að hægt sé að flytja fólk nauðugt á milli landa þarf viðkomandi einstaklingur annaðhvort að hafa heimild til komu og dvalar í móttökuríkinu eða viðkomandi ríki þarf að samþykkja móttöku hans með öðrum hætti, svo sem með samningum milli ríkjanna eða með öðru samkomulagi.“

Það sem þetta þýðir, virðulegi forseti, er að það stendur til að reyna að vísa fólki til landa sem eru ekki aðilar að Dyflinnarsamkomulaginu, sem eru ekki aðilar að samkomulaginu á milli Evrópuríkja um að taka við flóttafólki eftir ákveðnum reglum. Ef það hefur t.d. sótt áður um vernd í einhverju öðru landi, ef það hefur þegar hlotið vernd eða eitthvað slíkt þá erum við með móttökusamning í raun. Við erum með skuldbindingar á báða bóga um að taka við og senda á milli o.s.frv. og þannig er hægt að þvinga fólk til Grikklands t.d. sem hefur hlotið vernd þar vegna þess að það er samkomulag á milli Íslands og Grikklands í gegnum Dyflinnarsamkomulagið um að geta sent fólk þangað. Það er ekki samkomulag á milli Íslands og Chile um að geta sent fólk frá Venesúela til Chile. En það er eitthvað sem ég held að Útlendingastofnun dreymi um að geta gert. Það er bara ekki hægt vegna þess að það er ekkert samkomulag um að geta flutt fólk nauðungarflutningum þangað bara af því að Útlendingastofnun finnst að fólk ætti frekar að búa þar heldur en á Íslandi, þó að það komi frá Venesúela og hafa engan sérstakan dvalarstað í Chile. Þá bara finnst Útlendingastofnun, vegna þess að þú átt kannski einhverja systur þarna eða frænku, eða ég veit ekki, að þú eigir frekar að búa þar. Og hvað gera þau þá? Þau taka ákvörðun um að það eigi að senda fólkið þangað en það er algerlega ómögulegt að senda það þangað, það er ekki framkvæmanlegt, og þá kemur að þeim hluta sem ég var að tala um, að það er bara hægt að senda þig á götuna ef þú ferð ekki þangað sjálfviljugur. Þannig að Útlendingastofnun finnst að það eigi að senda þig til Chile, getur ekki framkvæmt það en ákveður samt að þú eigir að fara þangað og að 30 dögum liðnum, eftir þá ákvörðun, missirðu allan rétt til húsnæðis, til heilbrigðisþjónustu nema í neyðartilfellum, sem ekki hefur verið skilgreint hver eru, og til framfærslu, þessar 8.000 kr. á viku á einstakling sem ég var að vísa í og 5.000 á haus um leið og það er fjölskylda.

Það eru undantekningar á því hvaða fólki má vísa á götuna og hverju ekki ef Útlendingastofnun metur sem svo að það sé því sjálfu að kenna að það sé ekki hægt að fleygja því til einhverra landa sem Útlendingastofnun metur sem svo að það eigi að vera hægt að fleygja þeim til. Þær undantekningar eru taldar upp; börn, foreldrar eða umsjónarmenn þeirra og ættingjar, barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir. Ókei, þannig að fullorðnum konum og fullorðnum körlum má henda á götuna. Ég dreg þá ályktun af þessu að fylgdarlausum börnum sem hafa komið hingað, segjum 16 ára, 17 ára, sem verða svo 18 ára megi henda á götuna og ef þau verða alvarlega veik þá eigi þau ekki rétt á heilbrigðisþjónustu til að kanna hvort þau séu alvarlega veik þannig séð, alla vega ekki miðað við sýn umsagnaraðila á þetta mál.

Síðan ber auðvitað að nefna, sem kemur fram í umsögn Þroskahjálpar og er eitthvað sem ég hef líka rekið mig á endurtekið við skoðun á málsmeðferð Útlendingastofnunar, að Útlendingastofnun sinnir ekki rannsóknarskyldu sinni þegar kemur að því að meta hvaða áhrif fötlun einstaklings ætti að hafa á málsmeðferðina og er ekki með neitt sérstakt kerfi til að halda utan um fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd og þar af leiðandi er alls ekkert öruggt að passað verði með fullnægjandi hætti upp á að þessi undantekning um að það megi ekki vísa fötluðu fólki á götuna verði virt að neinu marki.

Mig langar líka að segja að mér finnst áhugavert þetta með barnshafandi konur í ljósi þess að þessari sömu ríkisstjórn fannst samt ekkert athugavert við að senda mjög barnshafandi konu í margra klukkutíma flugferð þar sem heilsu hennar var teflt í tvísýnu fyrir ekkert svo löngu síðan. Það hafði engar teljandi afleiðingar. Það virtist öllum vera algerlega sama um það á sínum tíma, en ágætt auðvitað að það megi ekki henda óléttum konum á götuna á Íslandi. Það breytir því ekki að um leið og þú ert orðin 18 ára kona, barnlaus, ekki metin sem svo að þú sért fötluð — og þá fötluð með langvarandi stuðningsþarfir, ekki bara fötluð heldur fötluð með langvarandi stuðningsþarfir — og ekki metin sem svo að þú sért alvarlega veik þá má vísa þér á götuna. Við vitum auðvitað og við höfum dæmi um að þetta var gert áður en að þetta ákvæði kom einu sinni fram, og sem er sem betur fer ekki enn þá búið að festa í lög. Þetta var gert, um 20 umsækjendum um alþjóðlega vernd var vísað á götuna í febrúarmánuði 2021. Þá var sem betur fer ekki jafn viðbjóðslegt veður og hefur verið undanfarið en það breytir því ekki að stjórnvöld vísuðu 20 einstaklingum um alþjóðlega vernd á götuna um miðjan vetur fyrir tveimur árum síðan einmitt fyrir að standa í vegi fyrir eigin brottvísun að mati Útlendingastofnunar, eitthvað sem hefur reyndar ekki staðist skoðun dómstóla. Þegar þessi þjónustusvipting fór fyrir úrskurðarnefnd um útlendingamál var komist að þeirri niðurstöðu að þetta mætti ekki, það væri ekki heimild fyrir því í lögum að vísa fólki á götuna. Þess vegna er þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að það vantaði lagaheimild í lögum til að geta vísað fólki á götuna. En það hafði samt engar afleiðingar áður, pælið í því, í réttarríkinu Íslandi. Það hafði engar teljandi afleiðingar fyrir Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra, sem var meðvituð um þessa þjónustusviptingu og meðvituð um að það væru efasemdir um hvort þetta væri lögmætt, að hafa hent 20 flóttamönnum á götuna, út á guð og gaddinn um miðjan vetur í hittiðfyrra.

Þetta sýnir bara forherðinguna í þessum málaflokki og virðingarleysi gagnvart einum jaðarsettasta hópi samfélagsins. Það má henda honum á götuna án lagaheimildar og án afleiðinga. Það sem stjórnarliðar eru að gera með samþykkt þessa frumvarps, takist þeim það ætlunarverk sitt, er að lögfesta þá ómennsku að henda flóttafólki út á guð og gaddinn, jafnvel um miðjan vetur, jafnvel í þessu veðri sem við erum að sjá núna, án þess að hirða nokkuð um hvað verður um það og algerlega án þess að það sé hægt að sýna með nokkrum hætti fram á að það beri neina sök á því að það sé ekki hægt að vísa þeim úr landi. Það er það sem stendur til að gera með þessu frumvarpi. Þetta er ein helsta ástæðan fyrir því að ég stend hér í þessum ræðustól, og við Píratar, og mótmælum þessu af krafti og spyrjum enn og aftur: Hvers vegna vilja stjórnarliðar henda flóttafólki á götuna?