Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er í fjárlaganefnd eins og hv. þingmaður nefndi og ég sé ekki kostnaðarmatið í þessu frumvarpi en tilfinning mín er sú að kostnaður muni aukast í raun per umsókn, sem sagt ekki af því að umsóknum fjölgi eða ferlið lengist. Breytingarnar sem verið er að gera hérna munu leiða til þess að kostnaður mun aukast og núverandi kostnaður í kerfinu er vegna stjórnleysis stjórnvalda sjálfra. Þau kvarta undan því að það sé stjórnleysi í málaflokknum. Þau ráða málaflokknum. Þau eru að stjórna málaflokknum. (ÞorbG: Þau eru stjórnvaldið.) Þau eru stjórnvaldið sem á að stjórna því en þau segja sjálf: Við erum með algjört stjórnleysi hérna. Ég veit ekki hvort er rétt, hvort þau séu að skálda það að það sé stjórnleysi til að koma þessum breytingum í gegn eða hvort það sé í raun og veru stjórnleysi. Hvort tveggja getur jafnvel verið satt í því tilviki því að við höfum mismunandi málsmeðferð fyrir fólk miðað við hvaðan það er í heiminum sem segir sitt um ýmislegt hér.

Mér finnst, sem fulltrúa í fjárlaganefnd, mjög oft mjög illa farið með greiningar á fjárhagslegu umfangi stjórnarfrumvarpa. Ég hef elt það í mjög mörgum málum og við vorum einmitt á fundum núna síðdegis um hvernig væri hægt að leggja betur fram greiningar á því hver væri kostnaður laga. Hvað kostar að framfylgja lögum um útlendinga, hvernig er hægt að gera það á skilvirkari hátt án þess að það kosti réttindi? Því það er alltaf þjónustan sem við erum að ákveða hérna að þurfi að veita og við þurfum að veita samkvæmt alþjóðasáttmálum, við skorumst ekkert undan því og frumvarpið segir það bara bókstaflega að við viljum framfylgja öllum réttindum samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. (Forseti hringir.) Þá er það okkar spurning: Hvernig getum við gert það á sem skilvirkastan hátt án þess að ganga á mannréttindi fólks? (Forseti hringir.) Þetta frumvarp er ekki að gera það.