Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í umfjöllun nefndar er kafli um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Þar er sagt að í umsögnum um málið hafi verið vísað til nokkurra ákvæða stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga vegna ólíkra greina frumvarpsins og bent á í rauninni mögulegt ósamræmi frumvarpsins og þeirra skuldbindinga og stjórnarskrár. Þar fjallar meiri hlutinn um að helstu ábendingarnar varði þessa breytingu vegna sjálfkrafa kæru, það er nr. 1, nr. 2 vegna heimildar lögreglu til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum, síðan vegna niðurfellingar réttinda eftir endanlega synjun, svo að lokum vegna stöðu og réttinda barna og réttinda fatlaðs fólks.

Eins og við vinnum hérna á þingi — þingmenn eru einfaldlega ekki sérfræðingar í öllu, það er gjörsamlega ómögulegt. Sumir eru tvímælalaust meiri sérfræðingar í öðru en aðrir og það gengur tvist og bast. Til þess að taka ákvarðanir hérna í þingsal og fylgja stjórnarskránni í rauninni um það að eina regla þingmannsins er bara sannfæring þingmannsins, til þess að renna einhverjum grundvelli undir það að þingmaður geti framfylgt sinni sannfæringu, í rauninni bara samvisku, þá þarf þingmaður sem er ekki endilega sérfræðingur í málefnum útlendinga að leita sér kannski álita. Þess vegna kallar Alþingi eftir umsögnum frá þeim sem hafa djúpa þekkingu á þessum málaflokki og gera athugasemdir við fyrirætlanir stjórnvalda. Við þurfum nefnilega alltaf að átta okkur á því að hérna eru stjórnvöld og þau hafa í gegnum tíðina gert ýmiss konar óskunda, til að orða það svona á léttúðlegan hátt, og það er okkar hlutverk hérna í rauninni að passa upp á að stjórnvöld gangi ekki gegn skyldum sínum samkvæmt lögum, samkvæmt stjórnarskrá og þess háttar. Þá öflum við okkur sérfræðiálita sem útskýra samhengi málsins fyrir okkur.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru ýmsir hagsmunaaðilar hér úti sem segja sína skoðun án þess að vera endilega að segja frá málinu í heild, bara frá sínu sjónarhorni, og svo þarf að bera saman þessi sjónarmið til að fá kannski einhverja heildstæða mynd. Það eru mismunandi vangaveltur um of eða van í einhverjum tilfellum og rökin þar á bak við og maður er að taka ákvörðun um það hvor rökin séu kannski veigameiri eða spyrja nánar.

Núna erum við með allar þessar umsagnir í þessu máli sem eru neikvæðar um t.d. þessi atriði sem varða stjórnarskrá og alþjóðasáttmála. Og hvað gerir meiri hlutinn? Hann segir nei þegar við biðjum um óháð lögfræðimat á frumvarpinu, um það hvort það standist þessi ákvæði. Það er bara nei. Meiri hlutinn setur í sitt nefndarálit einfaldlega sína skoðun á því hvort skilyrðin séu uppfyllt eða ekki. Það er ekki leitað eftir neinum öðrum álitum hvað það varðar heldur einfaldlega: Við teljum að þetta sé ekki vandamál af því að … og svo er einhver upptalning sem í rauninni í öllum tilfellunum varðandi þessar ábendingar — það er meira að segja sumt sem er ekki einu sinni fjallað um þannig að við skulum leyfa því að liggja á milli hluta, en alla vega um þau atriði sem er fjallað um er bara svona umfjöllun um það hvernig þeim finnist þetta ekki vera vandamál. En það svarar samt ekki ábendingu sérfróðra aðila um það að þetta sé vandamál, heldur bara að þeim finnist þetta ekki vera vandamál út af einhverju. Hvort það standist eða ekki, við höfum ekki hugmynd um það í rauninni nema út frá því sjónarhorni að þau eru hlutdræg. Þetta er þeirra frumvarp, þeirra ríkisstjórnar, sem þau hafa áhuga á því að verja. Þau hafa ekki áhuga á því að fá óháð lögfræðiálit. Þau segja nei við því. Það er grunsamlegt, það er rautt flagg um faglega málsmeðferð og ég geri alvarlegar athugasemdir við svoleiðis málsmeðferð.