Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í síðustu ræðu minni ræddi ég um kostnað. Það er nú einu sinni þannig að það gleymist oft í þessari umræðu að skoða það sem við fáum sem samfélag út úr því að taka á móti þessu fólki. Já, það er nefnilega ekki bara kostnaður, við græðum líka á því að taka á móti þessu fólki. Mig langar að byrja á því að tala um matarmenninguna. Þvílík breyting sem varð hér þegar ég var ungur drengur og hingað komu fyrstu flóttamennirnir frá Víetnam. Allt í einu fékk maður mat sem var kryddaður með einhverju meiru en salti og pipar. Já, þar tókum við á móti hópi sem var fljótur að verða mjög virkur í íslensku samfélagi, hópi sem gerði íslenskt samfélag mun kryddaðra að búa í. Ef við horfum í kringum okkur í dag þá sjáum við frábæra flóru veitingastaða sem bjóða okkur upp á mat frá Afríku, Asíu, Miðausturlöndum og Suður-Ameríku. Margir af þessum stöðum eru stofnaðir af hælisleitendum eða hafa stóran hóp hælisleitenda sem starfsfólk. Það er líka athyglisvert, og nú er ég bara að tala um matarmenninguna og hvernig hún hefur breyst, að horfa á það hvernig íslenskir matsölustaðir hafa þróast. Þá er ég ekki að tala um þá sem eru að bjóða upp á kínverskan mat eða mat frá Miðausturlöndum heldur hinn almenna íslenska matsölustað sem áður fyrr var með tiltölulega einfaldan mat en við höfum séð breytast á þann veg að búið er að blanda íslenska hráefninu og íslensku eldamennskunni saman við eldamennsku frá öllum hinum menningarheimunum. Þannig hefur tekist að búa til ótrúlega flotta veitingastaði sem virkilega krydda tilveruna.

Það er ekki nóg með að matarmenningin hafi breyst, við skulum líka tala um það hverjir manna mörg af undirstöðustörfunum í ferðaþjónustunni eða fiskvinnslunni. Já, tvær af undirstöðugreinum atvinnulífsins í dag — þar vinnur ótrúlega mikið af fólki sem kom hingað sem hælisleitendur eða í gegnum fjölskyldusameiningar eða annað slíkt. Hvar værum við án þeirra?

Það er ekki bara maturinn sem breytist heldur menningin öll. Sem betur fer erum við komin með alvöru fjölmenningarlegt samfélag og áttum okkur kannski á því að það sem okkur þótti venjulegt í gamla daga var bara frekar takmörkuð sýn á hlutina. Það er alveg ótrúlegt hvað það hefur mikil áhrif, ekki bara á mat og vinnu heldur líka á hinn skapandi heim, hinar skapandi greinar, þegar þú blandar þessu öllu saman. Þú færð svo miklu meira út úr því en með því að hugsa alltaf að við verðum að halda menningunni eins og hún var.

Frú forseti. Við þurfum að fagna fjölmenningunni. Við þurfum að fagna þeim sem vilja verða hluti af þessu skrýtna samfélagi á hjara veraldar sem við búum í. Við þurfum að taka á móti þessu fólki sem kemur hingað úr neyð og nýta kraftinn og sköpunargleðina í því til að gera þetta samfélag enn betra en það er í dag.