Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er enn í heiðarlegri tilraun minni til að útskýra málið fyrir hv. þingmönnum, fyrst og fremst, sem bera þá þungu ábyrgð að ákveða hvort þetta frumvarp eigi að verða að landslögum á Íslandi eða ekki. Ástæðan fyrir því að ég er að gera það er sú að ég trúi því í alvörunni ekki að þau geri sér grein fyrir því hvað þetta felur í sér. Ég held að ef þau gerðu sér fulla grein fyrir því myndu þau ekki styðja þetta mál.

Ég er búin að fara yfir nokkrar umsagnir um 2. gr. frumvarpsins sem fjallar um sjálfvirka kæru og lögbundinn greinargerðarfrest. En það sem vakti athygli mína við þær umsagnir sem bárust var hversu margir aðilar gerðu alvarlegar athugasemdir við þetta ákvæði sem virðist vera það saklausasta í frumvarpinu við fyrstu sýn. Á meðal þeirra aðila sem gerðu athugasemdir við þetta ákvæði, og í raun bara eitt annað, þetta og eitt annað ákvæði, var Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem er ætlað að standa vörð um flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna sem Ísland og flest ríki heims, öll nema tvö ef ég man rétt, eiga aðild að. Stofnunin gefur sem sagt leiðbeiningar og ráðgjöf til ríkja um það hvernig þau geti hagað löggjöf sinni þannig að það samræmist flóttamannasamningnum. Flóttamannasamningurinn er í rauninni ótrúlega einfaldur og hann kveður á um algjör grundvallarréttindi flóttafólks og gengur í sjálfu sér mjög stutt hvað það varðar. Sömuleiðis ganga ábendingar Flóttamannastofnunar ekki jafn langt og mörg myndu kannski vilja sjá og hefur Flóttamannastofnun verið þekkt fyrir það að vera tiltölulega hógvær í gagnrýni sinni og ábendingum til stjórnvalda. Því kom það mér í alvörunni á óvart að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar skyldi ekki taka meira tillit til umsagnar Flóttamannastofnunar miðað við þetta frumvarp. Ég minnist á þetta hérna þar sem ég er að fjalla um 2. gr. frumvarpsins og Flóttamannastofnun gerði athugasemdir við hana.

Ég ætla að byrja á að renna yfir 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem er lögfestur með lögum nr. 62/1994. Það er gjarnan talað um það í akademískri lögfræði að mannréttindasáttmáli Evrópu hafi það sem kallað er stjórnarskrárígildi hér á landi vegna þess að annars væri þá búið að lögfesta hann og mörg mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar bæði endurspegla ákvæði mannréttindasáttmálans og eru túlkuð til samræmis við hann. Hér er því um að ræða lög sem er hægt að færa mjög skýr rök fyrir að séu í rauninni rétthærri öðrum lögum, hafi stjórnarskráígildi, enda er stjórnarskráin okkar æðstu lög þó að meiri hlutinn hér á þingi sé ekki mjög upptekinn af því að virða það.

Í 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu segir, með leyfi forseta:

„Réttur til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans skert, sem lýst er í samningi þessum, skal eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi, og gildir einu þótt brotið hafi framið opinberir embættismenn.“

Í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna — ég er með skjal á ensku en það kom þýðing á skjalinu sem er ekki alveg rétt og ég gæti þurft að breyta því eitthvað en við skulum láta vaða — segir um 2. gr. frumvarpsins — afsakið ég held ég verði að fara með þetta í næstu ræðu þar sem ég finn ekki skjalið hér hjá mér.

Ég bið virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.