Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Þar sem það er svona stuttur ræðutími hjá okkur í þessari umræðu, sem ég mun leggja til breytingar á, þá er ræðan mín hér öll í litlum bútum. En ég fer nú vonandi fljótlega að ljúka mér af varðandi 2. gr. frumvarpsins, af 21, sem er ein sakleysislegasta greinin í frumvarpinu um sjálfvirka kæru í ákveðnum tegundum mála og 14 daga greinargerðarfrest. Það sem mig langaði til að árétta varðandi 2. gr. frumvarpsins er að lokum umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands. Aðalathugasemd Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands við frumvarpið var, eins og hefur komið fram í máli annarra þingmanna, svo sem hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og hv. þm. Halldóru Mogensen og fleiri — en Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er stofnun sem nýtur mikillar virðingar í samfélaginu fyrir mikla sérþekkingu, rannsóknir og ráðgjöf varðandi stjórnarskrána og mannréttindi — að það hefði ekki farið fram neitt mat á því hvort frumvarpið stæðist stjórnarskrá. Er þetta talið sérstaklega alvarlegt þar sem í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir orðrétt, með leyfi forseta: „Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá.“

Við þetta gerði Mannréttindastofnunin athugasemdir og svo fer stofnunin yfir tilteknar greinar frumvarpsins þar sem sérstaklega er tilefni til að hafa áhyggjur af samræmi við stjórnarskrá, ákvæðin sem gefa sérstakt tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá andstætt því sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Þessi ummæli í greinargerðinni lýsa kannski viðhorfum frumvarpshöfundar og dómsmálaráðherra til stjórnarskrárinnar og þess sem verið er að gera í þessu frumvarpi og mikilvægi þess að það standist stjórnarskrá.

Í umsögn stofnunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skv. 7. gr. laganna sæti ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skuli greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar.

MHÍ vekur athygli á því að forsenda þess að umsækjandi geti skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála er að viðkomandi hafi öll gögn málsins. Fram hefur komið að Útlendingastofnun áskilur sér a.m.k. 10 daga frest til að afhenda öll gögn. Tímafrekt getur einnig verið að afla gagna annars staðar frá. Það gefur umsækjanda því afar skamman frest til að vinna greinargerð sína, svo skamman að illmögulegt getur verið fyrir umsækjanda að gera fullnægjandi greinargerð og í sumum tilfellum ómögulegt vegna skorts á gögnum. Svo skammur frestur getur að mati MHÍ brotið gegn réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns sem m.a. er tryggður í 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög 62/1994. Hér er því um umtalsverða skerðingu á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að ræða. MHÍ hvetur Alþingi til að endurskoða þetta ákvæði til að tryggja að grundvallarmannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd séu tryggð.“

Í allsherjar- og menntamálanefnd komu þessar athugasemdir fram frá fleiri aðilum, þar á meðal Rauða krossinum, sem ég rakti hérna áðan, og voru gerðar tillögur um að ef það ætti að lögfesta greinargerðarfrestinn yrði han hafður a.m.k. jafn langur kærufresti í nágrannaríkjum. Þá vil ég árétta aftur meintan tilgang með þessu frumvarpi af hálfu meiri hlutans; að aðlaga löggjöf okkar að löggjöf annarra ríkja. En þarna þykir ekki ástæða til þess. Er þetta ekki akkúrat ákvæðið þar sem réttast væri að horfa til reynslu annarra ríkja og taka upp löggjöf þeirra? Í nágrannaríkjunum er kærufrestur í þessum málum 21 dagur og greinargerðarfrestur til viðbótar við hann. Samkvæmt frumvarpinu er kærufrestur 0 dagar og greinargerðarfrestur 14. Það er ekki í samræmi við löggjöf nágrannaríkja, líkt og haldið er fram í greinargerð með frumvarpinu.