Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var aðeins byrjaður að fara yfir þessi 11 atriði sem sagt er að eigi að leiða til þess að mannúðarsjónarmið verði höfð í huga og löggjöf sé samræmd og þess háttar. Fyrsta atriðið er að umsækjendur sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki séu ekki ... vandamál. Þar er listað að 2018 hafi 16% umsókna verið frá fólki með vernd annars staðar, 2019 hafi það verið 24%, 2020 54%, sem er náttúrlega skrýtið ár upp á það að gera að þarna var Covid líka sem ruglar pínulítið, 2021 hafi síðan verið 21%. Það er einhvern veginn borið saman við önnur Evrópulönd sem hafa aukningu upp á 5%. Við stígum frá 16% upp í 52% í miðju Covid og niður í 21% og það er talað um að það sé fjölgun umsókna en það munar ekkert rosalega miklu þarna í rauninni þegar allt kemur til alls. Það er útskýrt hérna að þessi fjölgun umsókna sé til komin af tvennu. Annars vegar vegna 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga sem leggur skyldur á stjórnvöld að taka mál einstaklinga sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki til efnismeðferðar. Hins vegar hafa mörg verndarmál fengið efnismeðferð hér á landi sem stjórnvöld ná ekki að afgreiða innan 12 mánaða. Svo segir einfaldlega í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Til að bregðast við framangreindu mælir frumvarp þetta fyrir um að lokafrestur málsmeðferðar verndarmála miðist við þann tíma þegar máli er endanlega lokið á stjórnsýslustigi.“

Ég klóra mér dálítið í hausnum yfir þessu því að það er ekkert frekar útskýrt hvað þetta þýðir. Hverju munar þetta þegar allt kemur til alls í heildarsamhengi málanna? Hverju breytir þetta upp á það hversu lengi fólk er, eða tengist þetta bara því hvenær þau vilja að 30 daga fresturinn byrji að tikka? Ef svo er breytir þetta nákvæmlega engu því að það að taka þjónustuna af fólki, eins og hefur komið fram í umsögnum umsagnaraðila, er örugglega ekki að fara að leysa neinn vanda. Það er ef eitthvað er bara að fara að búa til fleira heimilislaust fólk. Þetta er fólk sem kemst ekkert burt frá landinu. Það getur ekki einu sinni unnið sér inn pening til þess síðan að geta farið eitthvað, jafnvel þótt það vildi það og ef það væri möguleiki. Ef svo væri þá gæti það svo kannski ekki farið neitt annað en til annars lands þar sem það þyrfti að sækja um alþjóðlega vernd, fólk frá Íran t.d. sem ég nefndi áður í umræðunni.

Það er ekkert útskýrt hvernig þetta ákvæði hjálpar neitt við einhverja mannúð eða skilvirkni nema kannski að tengja það einhvern veginn inn á þennan 30 daga þjónustuskerðingarfrest sem aftur virðist ekki hafa nein sérstök áhrif eða alla vega er ekkert útskýrt neitt nánar hvernig það á að auka einhvers konar skilvirkni eða mannúð, hvað þá einmitt það.

Síðan er það annað atriði sem er sjálfvirka kæran, sem er mjög áhugavert að sé sagt að búi til einhverja skilvirkni. Það eru ákveðnir frestir núna í lögunum, 14 dagar, sem breytist í rauninni þegar allt kemur til alls, þetta er smá púsluspil, það eru í rauninni sjö dagar sem sparast fyrir kærunefnd útlendingamála — en samt ekki, alla vega miðað umsögn þeirra eða þegar þau komu fyrir nefndina. Þá sögðust þau í rauninni alltaf taka við nýjum gögnum, þeim ber skylda til þess bara upp á ákveðna rannsóknarreglu að gera svoleiðis. En samt er líka sagt lögunum hérna að það þurfi að skila greinargerð og henni skuli skilað innan 14 daga. Þegar það er komin svoleiðis kvöð í lög getur kærunefnd útlendingamála bara sagt: Heyrðu, fyrirgefðu, við verðum að fara eftir lögum og þar segir að þú eigir að skila innan 14 daga og þú fyrirgerðir rétti á máli þínu. Við lítum svo á að þú viljir ekki framfylgja þessu. Þau segja: Já og nei, og við erum samt að sinna rannsóknarskyldu. Það er allt rosalega óljóst (Forseti hringir.) þegar maður er að reyna að spyrja nánar út í það hvað þetta þýðir, og aftur, það er ekki mannúð, ekki skilvirkni.