Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að fjalla um sjálfkrafa kæru, hún er nefnilega dálítið áhugaverð. Í greinargerðinni er fjallað um þetta, með leyfi forseta:

„Þá verður greinargerðarfrestur kæranda með tillögu þessari 14 dagar en í verklagsreglum kærunefndarinnar um greinargerðarfresti í þessum málum er gert ráð fyrir sjö virkum dögum. Með tillögunni verður því greinargerðarfrestur kæranda að jafnaði lengdur um þrjá virka daga.“

Þá klórar maður sér í hausnum og pælir: Nú, átti ekki að stytta tíma og gera skilvirkara o.s.frv.? Já, en nei, alveg rétt, það á að kæra sjálfkrafa en það er venjulega 14 daga frestur til að kæra. Þar er tímamismunur einhvern veginn í sem sagt — já, fá þremur dögum lengri tíma til að skila greinargerð en nei, þau fá 14 dögum styttri tíma til að — sem þau höfðu venjulega haft frá því að það kom ákvörðun fram til þess að þau gætu skilað inn kæru, sem sagt verið að taka þessa 14 daga og láta þá í rauninni hverfa, sem gerir það að verkum að það verður að setja inn einhvern frest til að skila inn greinargerð, sem eru gerðir 14 dagar, þ.e. það er ekki núna 14 daga kærufrestur og síðan 7 virkir dagar fyrir þau að skila greinargerð. 14 daga kærufresturinn hverfur og verður 14 dagar til að skila greinargerð í staðinn. Það eru þessir 7 virkir dagar þarna sem tapast í rauninni í undirbúningstíma fyrir kærendur. Við verðum að hafa það í huga að þetta eru dagar sem er verið að taka frá fólki sem annars hefði rétt til að undirbúa mál sitt betur. Eins og hefur komið fram hérna í umræðunni þá hefur almennur kærufrestur fyrir stjórnsýslu verið þrír mánuðir, mig minnir að það hafi verið sagt hérna. Þannig að við erum að tala um þessa 14 daga miðað við þrjá mánuði. Það er dálítið skorið við nögl hversu mikinn tíma fólk hefur til að afgreiða sín mál þannig að það er nú þegar gríðarlega mikil skilvirkni þarna sem mögulega gengur á rétt fólks til að fá að gera grein fyrir máli sínu.

Síðan er það þriðja atriðið sem er endurtekna umsóknin. Þar er sagt að nauðsynlegt sé að hverfa frá núverandi framkvæmd varðandi endurupptöku umsókna um alþjóðlega vernd og færa þess í stað inn í lögin sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna að fyrirmynd annarra Evrópuríkja en tryggja samt sem áður rétt umsækjenda til að fá ákvarðanir í málum sínum skoðaðar á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga. Þetta er í nokkrum greinum frumvarpsins. Það er eitt sem gerir dálítið erfitt að sjá heildarsamhengi breytinganna, það er verið að breyta í 1., 3. og 7. gr. frumvarpsins til að ná þessu fram og þá þarf að skoða allar þær breytingar með tilliti til þess hvernig það er í lögunum núna og púsla því saman og það er stundum dálítið flókið, ef við getum orðað það þannig, lögfræðimál er bara — sérstaklega þegar maður fær ekki óháð lögfræðiálit til að meta hvort frumvarpið standist stjórnarskrárákvæði þá verður maður að leggja dálítið í það sjálfur ásamt þeirri aðstoð sem við getum fengið hérna sem þingflokkur, sem að sjálfsögðu allt þingið og allir þingmenn ættu einfaldlega að fá með þessari beiðni okkar um að fá óháð lögfræðimat á þessu atriði.

Vandinn hérna er að við erum að tala um hvað, þetta eru 28 úrskurðir árið 2016 og 159 árið 2021. Þetta er ekkert rosalega mikið þegar allt kemur til alls. Það er líka sagt hérna varðandi nýju gögnin að þar eigi að vera sýnilega auknar líkur — svona geðþóttaákvörðun mögulega um það hvernig fólk getur túlkað það, hvort nýjar upplýsingar séu eitthvað sem gæti leitt til endurupptöku máls. Ég fjalla greinilega um það aðeins seinna, það er stuttur ræðutími hérna eins og hefur komið fram áður. Forseti má vinsamlegast bæta mér á mælendaskrá, takk fyrir.