Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú erum við búin að ræða þetta mál hérna í dag og ræddum það áður. Í fjölmiðlum hefur ítrekað komið fram af hálfu þingmanna meiri hlutans að það standi til að gera breytingar á frumvarpinu þegar það fer inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. og stærir hv. þingmaður Jódís Skúladóttir sig af því að hafa óskað eftir því að málið fari inn til nefndar milli 2. og 3. umr. sem þó er oftast gert þegar 2. umr. lýkur vegna þess að talin er þörf á því eftir 2. umr. að það verði tekið aftur fyrir í nefnd. En ég vil bara óska eftir því að málinu verði vísað strax aftur inn í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem það er augljóst að það er ekki tilbúið. Við erum að ræða einhver drög sem við vitum ekki einu sinni hvort verður breytt eða ekki. Ef það stendur til að gera einhverjar efnislegar breytingar á frumvarpinu er eðlilegt að þær verði gerðar áður en við förum í þessa umræðu. Það er 2. umr. sem skiptir langmestu máli. Við verðum að vera með rétt plagg hérna. (Forseti hringir.) Ef það verður ekki gert þá er það staðfesting á því sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði í fjölmiðlum í dag, að það standi ekki til að gera neinar efnislegar breytingar á frumvarpinu, (Forseti hringir.) líklega bara færa einhverjar kommur til eða frá.