Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég má til með að taka undir orð hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um að brýnt tilefni sé til þess að kalla þetta mál strax inn til nefndar í stað þess að bíða eftir því að 2. umr. um málið klárist. Ég hlýt líka að benda á það að fyrir jól, áður en málið fór í 2. umr., áður en málið var komið á þennan stað, þá var strax byrjað að tala um að kalla málið inn milli 2. og 3. umr. Áður en 2. umr. hófst var verið að segja að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur vegna þess að kalla ætti málið inn á milli 2. og 3. umr. Við ætlum fyrst að taka alla efnisumræðuna, umræðuna um öll efnisatriði frumvarpsins, mikilvægustu umræðuna, um þetta mál og svo ætlum við kannski að gera einhverjar breytingar milli 2. og 3. umr. af því að við vitum að það þarf eitthvað að laga.

Virðulegur forseti. Það er réttast og það er sanngjarnast (Forseti hringir.) að kalla þetta mál inn strax til umræðu í nefndinni og umfjöllunnar til þess að við fáum að sjá á spilin og hverju stendur til að breyta.