Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þegar gengið er á þingmenn meiri hlutans, sem vilja a.m.k. að nafninu til gangast við því að styðja mannúð og mannréttindi flóttafólks, og bornar upp á þau neikvæðar umsagnir og spurningar um hvort frumvarpið standist stjórnarskrá — neikvæð umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins, Amnesty, Mannréttindastofnunar, Háskóla Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands o.s.frv. — þá bregðast þau við með því að segja að til standi að gera einhverjar breytingar á frumvarpinu milli 2. og 3. umr. En þau hafa ekki með nokkru móti fengist til að segja út á hvað þær breytingar ganga. Það fær mig, virðulegi forseti, til að halda að ekki standi til að gera neinar efnislegar breytingar. Við höfum skiljanlega mjög ríkar ástæður til að hafa áhyggjur af því að það standi ekki til en að það eigi að láta okkur halda að það standi til að hægt sé að koma málinu í gegnum þingið óbreyttu. (Forseti hringir.) Ef það stendur í alvörunni til að fara í breytingar þá er rétt að kalla málið aftur inn til nefndar nú þegar.