Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni hérna áðan minntist ég á eina óvitlausa atriðið í þessu frumvarpi en náði ekki að komast að þeim tímapunkti þar sem ég útskýrði nákvæmlega það ákvæði. Ég var búin að fara aðeins inn á mismunandi dvalarleyfi sem fólk sem sækir um alþjóðlega vernd getur fengið ef það fær jákvæða niðurstöðu í málsmeðferð Útlendingastofnunar eða kærunefndar útlendingamála. Ég var búin að ræða að þegar þú færð dvalarleyfi með stöðu sem flóttamaður þá færðu fjögurra ára dvalarleyfi með atvinnuleyfi sem leyfir þér að sækja um vinnu í raun hvar sem er, fá vinnu hjá hverjum þeim sem vill ráða þig og sömuleiðis að setja á fót þinn eigin rekstur. Það sama gildir um dvalarleyfi með viðbótarvernd sem felur í sér þessi sömu réttindi, fjögurra ára dvalarleyfi og ótakmarkað atvinnuleyfi; þú mátt í raun leita þér að atvinnu bara nákvæmlega eins og hver annar Íslendingur eða einstaklingar t.d. með EES-dvalarleyfi hérna.

Síðan er það það sem ég myndi vilja kalla síðra dvalarleyfi sem fólk sem sækir hér um alþjóðlega vernd getur fengið en það er dvalarleyfi af mannúðarástæðum og því fylgir einungis eins árs dvalarleyfi og ekkert atvinnuleyfi. Til að mega yfir höfuð vinna þá þurfa einstaklingar sem hafa fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum í fyrsta lagi að finna vinnu, finna einhvern vinnuveitanda sem er tilbúinn að lofa eða gefa þeim vilyrði um vinnu. Það þarf að vera þolinmóður einstaklingur vegna þess að það er ekki fyrr en þú ert kominn með vilyrði um vinnu sem þú getur sótt um skilyrt atvinnuleyfi og það atvinnuleyfi er tengt við vinnuveitandann og vinnuna sem þú færð. Það tekur talsverðan tíma að fá þetta atvinnuleyfi og allan þennan tíma býður þessi vinnuveitandi eftir því að þú fáir að koma til vinnu, fáir náðarsamlegast leyfi yfirvalda til að vinna fyrir þér. Þetta atriði, að ótakmarkað atvinnuleyfi fylgi ekki sjálfkrafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum, á að laga með þessu frumvarpi þannig að ef þú færð dvalarleyfi af mannúðarástæðum þá eigir þú að fá atvinnuleyfi samhliða.

Mín vegna mætti taka öll önnur ákvæði úr þessu frumvarpi, skilja þetta ákvæði eitt eftir og samþykkja það. Ég vil halda því til haga að stjórnarliðar reyndu að nota þetta atriði sem svipu á okkur sem stöndum gegn þessu frumvarpi, um að við værum að standa í vegi fyrir því að fólk sem fengi dvalarleyfi af mannúðarástæðum gæti fengið sjálfkrafa atvinnuleyfi vegna þess að við stæðum gegn þessu frumvarpi. Ég vildi bara árétta, virðulegi forseti, að bæði liggur inni frumvarp frá hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur sem lagar bara þetta atriði og væri lítið mál að klára vegna þess að við vitum að það er þverpólitísk sátt um að það þurfi að laga þetta atriði. Sömuleiðis að koma með breytingartillögu við annað mál sem er í raun miklu betra mál til að breyta þessu en við fengum ekki einu sinni að koma því — það var alla vega ekki samþykkt — í gegn þrátt fyrir að það sé þverpólitísk sátt um þetta. Í raun hefur gagngert verið unnið gegn því að það sé hægt að laga þetta atriði sem allir eru sammála um að þurfi að laga, að ég held til að halda þessu atriði inni, hangandi yfir okkur, um að við séum að koma í veg fyrir að fólk með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti fengið atvinnuleyfi samhliða dvalarleyfinu.

Ég sé að tíminn er enn og aftur á þrotum, virðulegi forseti, en mig langar einmitt að ræða um þetta atriði í samhengi við flóttafólk frá Úkraínu og þá merkilegu stöðu að þau hafi öll fengið í raun dvalarleyfi af mannúðarástæðum og fái þar af leiðandi ekki ótakmarkað atvinnuleyfi og þurfi þetta vilyrði frá vinnuveitanda til að geta fengið skilyrt atvinnuleyfi. Já, hvers vegna það skiptir máli að leiðrétta það en ekki á kostnað grundvallarmannréttinda fólks á flótta. Ég mun því fara yfir það í annarri ræðu, virðulegi forseti, og ég vil því óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.