Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mér finnst einkar viðeigandi að hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hafi hér verið að tala um heilsufarsupplýsingar vegna þess að ég ætlaði að gera réttinn til heilsu að umtalsefni mínu í þessari ræðu. Ég vildi byrja á því að rýna í umsögn frá embætti landlæknis við þetta, enn og aftur, skelfilega mál. Í þeirri umsögn stendur, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er yfirgripsmikið og hefur ekki með að gera hlutverk og þekkingu embættis landlæknis nema í 6. gr. Þar er lagt til að réttur til þjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd falli niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar um synjun. Vissulega eru þar taldar upp undantekningar; barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar.

Af frumvarpinu verður ráðið að þrátt fyrir undanþáguákvæði geti komið upp sú staða að fólk verði svipt rétti til heilbrigðisþjónustu. Slíkt er óásættanlegt.“ — stendur hér, hvorki meira né minna — „Þeir sem undir þetta falla geta, rétt eins og aðrir og e.t.v. enn frekar en aðrir, glímt við sjúkdóma og heilsufarsvandamál sem nauðsynlegt er að bregðast við utan téðra tímamarka. Vart þarf að fjölyrða um alvarlegar afleiðingar sem stöðvun heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er vegna langvinnra sjúkdóma eða bráðra, getur haft í för með sér, ef ekki er brugðist við því sem upp kemur.

Embætti landlæknis telur að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta eigi að vera undan skilin.“ — þessari þjónustusviptingu reikna ég með að þau eigi við — „Það að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi en í Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1979 segir m.a. í 12. gr. um „... rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er“. Fyrir utan að það er ómannúðlegt að neita einstaklingi um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu getur það boðið heim hættu fyrir aðra ef t.d. einstaklingur er haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun sem hugsanlega eru ekki metnir alvarlegir við fyrstu sýn.

Embætti landlæknis leggur því til að öll nauðsynleg heilbrigðisþjónusta verði talin upp í undantekningum Í 6. gr.“

Þetta gerði meiri hlutinn ekki. Þeim finnst í alvörunni bara allt í lagi að svipta fólk rétti á grundvallarmannréttindum eins og heilbrigðisþjónustu. Það stendur til að halda því inni í þessu frumvarpi. Við höfum alla vega ekki heyrt neitt annað en að það eigi að klára það að taka þennan grundvallarrétt, réttinn til heilsu, af fólki á flótta. Ég hlýt að taka undir með embætti landlæknis þar sem þau segja að þetta sé óásættanlegt. Ég er alveg sammála landlækni, þetta óásættanlegt. Það er óásættanlegt að ætla sér að svipta fólk rétti til heilbrigðisþjónustu. Hvers konar land erum við eiginlega ef við ætlum að svipta flóttafólk heilbrigðisþjónustu sem það þarf á að halda? Hvers konar samfélag erum við ef við leyfum því að fara í gegn, í alvörunni talað, að við höfum hérna flóttafólk á götunni sem er vísað frá heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum vegna þess að það má ekki hjálpa því? Er það í alvörunni samfélagið okkar? Er það í alvörunni samfélag sem við sættum okkur við? Er það í alvörunni ásættanlegt fyrir okkur hér bara til að það sé mögulega hægt að neyða svona tvær, þrjár hræður til að fara eitthvað annað frekar en að vera hér?

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé ásættanlegt, virðulegi forseti. Það er m.a. þess vegna sem ég hlýt að halda áfram að reyna að koma viti fyrir þennan vitlausa meiri hluta og reyna að fá þau til að sjá ljósið í því að við getum ekki samþykkt að vera samfélag sem neitar fólki um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við köllum þetta frumvarp ógeðslegt, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er ekki í lagi. Þetta er ógeðslegt.