Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég náði ekki alveg að klára umfjöllun mína um 4. gr. frumvarpsins hér áðan. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 2. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings skv. 104. gr. er lögreglu heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði hans til að geta ferðast.“

Gott og vel. Í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta ákvæði, þessa tillögu, með leyfi forseta:

„Lagt er til að lögreglu verði fengin heimild til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði útlendings þegar nauðsyn þykir svo unnt sé að framkvæma ákvörðun um frávísun eða brottvísun skv. 104. gr. laganna. Við framkvæmdina ber lögreglu m.a. að tryggja að ekki séu til staðar ástæður sem koma í veg fyrir flutning viðkomandi úr landi, t.d. á grundvelli heilbrigðisástæðna. Getur þannig í vissum tilvikum reynst nauðsynlegt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um að viðkomandi útlendingur sé nægilega hraustur til að geta ferðast. Með heilbrigðisyfirvöldum er átt við alla þá aðila sem veita heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, þ.m.t. heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn hvort sem þeir starfa innan eða utan heilbrigðisstofnana.“

Það sem er ekki síst áhugavert við þetta er að það hefur komið fyrir að gagna hafi verið aflað frá heilbrigðisyfirvöldum sem segja að einstaklingur sé ekki í stakk búinn eða, eins og það er orðað hér, nægilega hraustur til að geta ferðast. Það sem er verið að tala um í þessu ákvæði, að sögn, er núna einungis, af því að þetta ákvæði hefur tekið breytingum, svokallað „fit to fly“-vottorð — enskusletta, með leyfi forseta. Ég þekki ekki íslenskt heiti, það er nú örugglega til einhvers staðar og ég mun grafa það upp fyrir áframhaldandi ræður en það er kallað þetta í daglegu tali um þessi mál.

Það hefur verið þannig frá upphafi, svo ég viti til, að lögregla hefur haft heimild til þess að afla þessara vottorða og þeirra hefur verið aflað. Fyrir hefur komið að slíkt vottorð segi: Nei, þessi einstaklingur er ekki „fit to fly“ eða eins og það er orðað hér, nægilega hraustur til að geta ferðast. Frægasta dæmið um þetta held ég að sé mál konu sem var komin mjög langt á leið, með barn í maganum, og læknir taldi ekki ráðlegt fyrir hana að ferðast, enda er þunguðum konum almennt ekki ráðlagt að ferðast eftir tiltekinn tíma. Ég held að það sé eftir 35. viku meðgöngu og fyrr ef um áhættumeðgöngu er að ræða, ekki nema bara ef hún þarf að ferðast heilsu sinnar vegna eða eitthvað slíkt.

Það sem gerði þetta mál frægt, vakti athygli við þetta mál, var ekki að það skyldi koma vottorð um að hún gæti ekki ferðast af því að það gerist af og til heldur viðbrögð Útlendingastofnunar við því. Útlendingastofnun var nefnilega ekki sammála. Útlendingastofnun fannst mikilvægt að koma þessari konu úr landi sem allra fyrst áður en hún ætti barnið, geri ég ráð fyrir, þar sem ekki var hægt að bíða þessar nokkru vikur sem hún átti eftir af meðgöngunni. Lagði stofnunin þannig lykkju á leið sína og aflaði nýs vottorðs frá trúnaðarlækni stofnunarinnar sem sagði: Jú, hún getur flogið. Frægar eru orðnar hræðilegar ljósmyndir og vídeómyndir af umfjöllun um þetta mál þar sem ungt barn hennar, þriggja eða fjögurra ára, felur sig á bak við stól eftir að það fréttir að flytja eigi þau úr landi og konuna ætti að flytja úr landi.

Ég skrifaði grein um þetta mál þar sem ég talaði um setningu, sem oft er fleygt fram í umræðum um framkvæmd Útlendingastofnunar, sem er: Þau eru bara að vinna vinnuna sína. Þarna er fólk bara að vinna vinnuna sína. En ég er ekki á þeirri skoðun. Ég held að ef Útlendingastofnun myndi bara vinna vinnuna sína þá værum við ekki að horfa upp á mál af þessu tagi. Þá hefði hún tekið þetta vottorð gott og gilt og það hefði verið beðið með flutning konunnar úr landi. Útlendingastofnun er ekki bara að vinna vinnuna sína, hún leggur lykkju á leið sína til þess að koma fólki úr landi þó að búið sé að segja að það sé ekki í lagi.

Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.