Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég hef hér aðeins vikið að svari sem ég fékk við fyrirspurn varðandi fjölda fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd og þá staðreynd að ekki sé haldið utan um þær tölur, hvorki hjá Útlendingastofnun né heldur kærunefnd útlendingamála, þrátt fyrir að þetta geti verið grundvallarbreyta varðandi ákvörðun um niðurstöðu umsóknar. Það hvort einstaklingur sé fatlaður eða ekki getur haft gríðarleg áhrif á það hagsmunamat sem býr að baki varðandi t.d. endursendingu og það hvaða þjónusta bíður þar.

Mig langar núna aðeins að víkka út sjóndeildarhringinn vegna þess að fatlaðir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru ekkert eini jaðarsetti hópurinn innan þess jaðarsetta hóps sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eru og sem stjórnvöld halda ekki nógu vel utan um upplýsingar um. Mig langar að nefna hinsegin umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það er nú aldeilis hópur sem hefur ástæðu til að óttast um líf sitt víða um heim og hefur þess vegna ástæðu til að sækjast eftir því að fá vernd hjá ríkjum sem eru komin lengra í átt að jafnrétti óháð kynhneigð. En utan um þessar upplýsingar er ekkert haldið heldur og raunar er þetta eitthvað sem mætti kannski skoða í ljósi þess að jafnréttismatið sem framkvæmt var á þessu frumvarpi er hvorki fugl né fiskur og tekur alls ekki til þessara hópa, hópa sem eru líklegir til að sæta mismunun, ekki bara á grundvelli þess að vera umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem er mismununarbreyta í sjálfu sér, heldur vegna annarra þátta sem gera þau enn viðkvæmari fyrir ofsóknum og sem reisir enn ríkari skyldur á hendur íslenska ríkinu að standa vörð um rétt þessa fólks og leggja sig fram um að mál þeirra séu skoðuð vel og vandlega. Raunar er gengið í þveröfuga átt í einu ákvæði frumvarpsins. Það er beinlínis verið að draga úr réttindum fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd, hinsegin fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd.

Eins og Samtökin '78 bentu á í viðbótarumsögn sem var send hér fyrir helgi þá er ákvæðið sem snýst um fjölskyldusameiningu kvótaflóttafólks stórt skref aftur á bak varðandi fólk sem hefur fengið að komast inn á kvóta til Íslands á grundvelli þess að vera hinsegin vegna þess að íslenska ríkið, samkvæmt þessu frumvarpi, ætlar að ákveða þá fjölskyldueiningu sem fólk tilheyrir bara út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir þegar viðkomandi er tekinn í viðtal, t.d. í flóttamannabúðum erlendis, áður en ákveðið er að taka þann einstakling til Íslands. En síðan ef kemur í ljós t.d. að hér sé um að ræða karlmann sem hafi verið í sambandi við annan karlmann í landi þar sem slíkt getur verið lífshættulegt þá ætlar íslenska ríkið að segja: Nei, fyrirgefðu félagi, þú sagðist vera einhleypur þegar við töluðum við þig í flóttamannabúðunum og við ætlum ekki að hleypa manninn þínum inn til landsins þó að hann sé væntanlega jafn útsettur fyrir ofsóknum og þú og þó að hann sé maðurinn þinn, hann má bara vera úti. Þarna eru frumvarpshöfundar alveg ótrúlega blindir á þá staðreynd að fyrir margt af því fólki sem er á flótta vegna kynhneigðar getur verið hættulegt að nafngreina fólk í kringum sig. Hvers vegna ætti þessi maður að greina frá nafni mannsins síns ef það gæti mögulega leitt til þess (Forseti hringir.) á erlendri grundu að hann verði fyrir ofsóknum? Er ekki eðlilegt (Forseti hringir.) að viðkomandi bíði þangað til hann er kominn í örugga höfn á Íslandi? Nei, Jón Gunnarsson segir nei. (Forseti hringir.) Maðurinn, þessi ástmaður, má bara éta það sem úti frýs.