Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er kominn að síðustu atriðunum í almennri yfirferð yfir atriðin sem fjallað er um í frumvarpinu, eins og þau koma fram í greinargerð. Níunda atriðið er meðferð mála um ríkisfangsleysi:

„Ef sótt hefur verið um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna eða grunur er um að það ákvæði eigi við skuli fyrst skorið úr því hvort skilyrði séu til þess að veita slíka vernd áður en ákvæði 39. gr. um ríkisfangsleysi er beitt, að því gefnu að ekki sé unnt að taka báðar umsóknir til meðferðar samhliða.“

Ég átta mig ekki alveg á tilgangi þess að breyta þessu á þennan hátt. Ef ekki er hægt að vinna þessar umsóknir samhliða er það þá þannig að það verður að skera úr um ríkisfangsleysi áður en hægt er að skera úr um alþjóðlega vernd? Þetta var óljóst í svörum ráðuneytisins eða alla vega þeirra gesta sem ég hitti þarna undir lokin. Það getur vel verið að þetta hafi komið fram fyrr en ég man ekki eftir að nákvæmlega þetta hafi komið fram í nefndarálitinu. Þetta er atriði sem nokkrir umsagnaraðilar fjölluðu um, sérstaklega í samhengi við það hvernig það gerist þegar einhver sem hefur fengið — nei, fyrirgefið, það er kvótaflóttafólkið, það er önnur grein. Það eru mörg atriði í þessu frumvarpi, mörg smáatriði, og það er auðvelt að afvegaleiðast aðeins og yfirfæra nokkrar greinar yfir á önnur atriði málsins þegar þetta er gert svona. Það væri hreinlegra ef þetta væru aðskilin frumvörp, sérstaklega ákvæðið hvað varðar tímabundið atvinnuleyfi sem á náttúrlega bara heima hjá öðrum ráðherra.

Síðan er það tíunda atriðið — ég held að ég hafi minnst aðeins á það áður — en það eru sem sagt lögbundin verkefni stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Hér er sagt:

„Með því móti er allur vafi tekinn af um það að framkvæmd flutnings í fylgd er lögregluaðgerð sem fellur undir gildissvið lögreglulaga.“

Nú klóra ég mér í hausnum og velti því fyrir mér hvort það sé einhver vafi á því núna. Og ef svo er, hvað þýðir það fyrir alla framkvæmd brottflutnings hingað til? Eða er þetta bara óþarfi? Þetta eru þessi atriði sem ég sé ekki ástæðu fyrir. Þetta getur verið eitt af þeim dæmum sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur nefnt að fordæmi séu fyrir einhvers staðar, að því hafi verið neitað í einhverri kæru að aðkoma lögreglu hafi haft einhver þau áhrif að málinu hafi verið hent út eða eitthvað svoleiðis eða eitthvað hafi þurft að taka til annarrar efnismeðferðar eða eitthvað því um líkt, það gæti verið eitthvað svoleiðis. En aftur þá veltir maður fyrir sér: Ef til eru dæmi um það, eru þau fleiri sem hafa þá kannski ekki verið rekin áfram? Eins og við höfum séð í umfjöllunum þá hafa þau dæmi sem hafa komið fram í fjölmiðlum einmitt verið vegna þess að viðkomandi einstaklingar hafa verið heppnir og náð ákveðnu tengslaneti og fengið aðstoð við sín mál á meðan fullt af öðru fólki hefur lent í sömu aðstæðum en ekki haft það eftirlit sem aðrir fengu vegna réttinda sinna sem umsækjendur.

Að grunni til, eftir yfirferð þessara 11 atriða, þá stend ég alla vega uppi með rosalega flókið úrvinnsluefni til að vinna með. Það er flókið að reyna að fá heildstæða mynd af málaflokknum eins og hann er og hvað þá að rekja allar afleiðingarnar sem þessi lagabreyting (Forseti hringir.) hefur á þetta nú þegar flókna ferli. Þegar það er sagt að þetta eigi að auka skilvirkni ætti þó að vera hægt að útskýra það hver sú aukna skilvirkni er.