Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar bara að rifja upp áskorun sem borin var fram til forseta fyrr í dag um að fresta þessari umræðu og vísa málinu nú þegar til allsherjar- og menntamálanefndar. Áður en málið var afgreitt úr nefndinni til 2. umr. þá lá í loftinu krafa, stefna eða ákvörðun stjórnarliða í nefndinni um að taka málið inn aftur milli 2. og 3. umr. og sú ákvörðun hefur verið ítrekuð í ræðustól, af sumum þingmönnum til að gera engar breytingar en af öðrum til þess að gera einhverjar breytingar sem bregðast við umsögnum sem komið hafa inn á fyrri stigum málsins. Ég tel eðlilegt, ef þetta verða einhverjar viðamiklar breytingar, að um þær sé a.m.k. rætt í 2. og 3. umræðu,(Forseti hringir.) en ekki bara látið reka á reiðanum og rætt í 3. umr. Því tel ég eðlilegt að málið fari nú þegar til nefndar.