Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að fullyrðingar í fjölmiðlum og annars staðar um að hv. þingmenn Vinstri grænna vilji gera breytingar á þessu frumvarpi séu ekki bara til þess fallnar heldur ætlaðar til að slá ryki í augu almennings og annarra, þar á meðal grasrótarhreyfingar innan framboðs sem trúir því að hreyfingin ætli að breyta þessu frumvarpi inni í nefnd. Ef ætlunin væri að gera raunverulegar breytingar væri í fyrsta lagi búið að gera þær. Þær umsagnir sem við erum að fara yfir hér og þær athugasemdir sem við erum að gera, t.d. í þessari umræðu — það er búið að gera þær allar. Ef það stendur til að gera einhverjar breytingar til að bregðast við þeim umsögnum þá hefði í fyrsta lagi löngu átt að vera búið að gera þær. Hvers vegna er ekki búið að því? Í öðru lagi þá má leiða líkur að því, miðað við túlkun meiri hlutans á stjórnarskránni, að það væri nú bara stjórnarskrárbrot. (Forseti hringir.) Það þarf augljóslega að taka þetta frumvarp til frekari vinnslu í ráðuneytinu (Forseti hringir.) ef bregðast á við þeim alvarlegu athugasemdum sem gerðar hafa verið við það.