Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er óvenjulegt að mál sé sent til nefndar í miðri 2. umr., óvenjulegt en alls ekki fáheyrt. Mig langar að rifja upp ekkert allt of gamalt dæmi frá því að við vorum hér í miðjum Covid-viðbrögðum og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði fram nefndarfrumvarp um loftferðir, lagði þar til að sú skylda væri sett á herðar flugrekenda að meina íslenskum ríkisborgurum um byrðingu ef þau hefðu ekki Covid-próf til að framvísa. Þetta þótti okkur augljóslega stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar um að engum íslenskum ríkisborgara mætti meina heimkomu. Stjórnarliðar sögðu nei, nei, þetta er ekkert svoleiðis og þvermóðskuðust við en sáu svo loksins að sér eftir aðeins of mikið röfl af okkar hálfu, (Forseti hringir.) drógu málið inn til nefndar og löguðu þetta. Þetta er nefnilega til. (Forseti hringir.) Stjórnarliðar eiga þetta til í sér. Ég ber örlitla von í mér um að þau eigi til í sér þá skynsemi sem þarf (Forseti hringir.) til að draga þetta mál til nefndar og ég vona að hæstv. forseti Birgir Ármannsson sinni því á morgun.