Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fá að halda áfram þar sem frá var horfið í umræðum um fundarstjórn forseta þar sem það varðar augljóslega þetta mál beint líka. Mig langar til að vitna í ræðu hv. þm. Jódísar Skúladóttur sem hún flutti hérna strax í upphafi umræðu um þetta mál. Með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Líkt og fram kom í upphafi máls míns hef ég kallað eftir því að málið gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Eitt sem þarf að skoða betur er glæný skýrsla Rauða krossins um þær erfiðu aðstæður sem fólk býr við sem er í svokallaðri umborinni dvöl á Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og sýna m.a. að fólkið býr við mikla óvissu um hvort það geti lifað mannsæmandi lífi. Fólkið býr við réttaróvissu og hefur takmörkuð réttindi og aðgengi að þjónustu í ótilgreindan tíma. Það býr við mikla óvissu um framtíð sína og mikla vanlíðan. Að auki hefur nefndin, líkt og fram kom í máli framsögumanns meirihlutaálits, fengið til sín fjölmarga gesti á síðustu dögum og úr þeim fundum þarf að vinna.“

Ef þetta gefur ekki tilefni til þess að taka málið inn í allsherjar- og menntamálanefnd strax, en ekki á milli 2. og 3. umr., þá veit ég ekki hvað gerir það. Það er nefnilega svo að 2. umr. um lagafrumvörp hér á þingi er samkvæmt reglum umfangsmest. Hún er umfangsmesta umræðan og það eru rýmstar heimildir til að halda ræður. Hvers vegna? Vegna þess að þar eiga umræðurnar um málið, svo gott sem tilbúið, að eiga sér stað. Líkt og hefur verið bent á þá er jafnan ekki ætlast til þess að gerðar séu viðamiklar breytingar á frumvörpum milli 2. og 3. umr., enda eiga lög sem eru samþykkt hér á Alþingi að vera rædd við þrjár umræður.

Þá langar mig bara til þess að leggja svolitla áherslu á það að í þessum orðum hv. þm. Jódísar Skúladóttur, sem ég las hérna upp, vísar hún til gestakoma í allsherjar- og menntamálanefnd sem áttu sér stað í fyrstu vinnuviku þingmanna á þessu ári, svokölluðum nefndadögum, þar sem fallist hafði verið á það, að kröfu okkar í þingflokki Pírata, að fengnir yrðu gestir fyrir nefndina og að málið yrði tekið til umfjöllunar þrátt fyrir að ekki hafi verið fallist á það formlega að taka málið inn í nefndina. Það er því mjög sláandi að sjá að í fyrsta lagi báðu þingmenn meiri hlutans jafnvel um gesti í þessum umræðum eftir að vera búnir að afgreiða málið úr hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd. Meiri hlutinn var búinn að afgreiða málið úr nefndinni, taldi það tilbúið til umfjöllunar hér á þinginu en taldi samt ástæðu til þess að kalla á frekari gesti fyrir nefndina eftir að Píratar fóru fram á að það yrði tekið til umfjöllunar þar og telja síðan þá umfjöllun og þau orð sem féllu af hálfu gesta og þau svör sem við fengum þar gefa tilefni til að gera breytingar á frumvarpinu.

Ég verð að játa að ég sé ekki hvers vegna meiri hlutinn telur réttlætanlegt að við höldum þessari umræðu hérna áfram. Það er augljóst að ef það á að bregðast við athugasemdum þeim sem bárust frá gestum sem komu í upphafi árs fyrir nefndina þá þarf að gera mjög miklar breytingar á þessu frumvarpi og það þarf að gera breytingar sem þarf að vera hægt að ræða hér. Það þarf að gera breytingar sem jafnvel gætu verið ástæða til að senda málið aftur til umsagnar. Það er augljóst af þessum orðum hv. þingmanns meiri hlutans, Jódísar Skúladóttur, að þetta frumvarp er ekki tilbúið. Það er ekki tilbúið til umræðu hér í þingsal. Það er algerlega óboðlegt að við séum að fara yfir það, ákvæði fyrir ákvæði, þegar við vitum í rauninni ekkert hvernig það mun að endingu líta út. Og þegar við loksins fáum að ræða hvernig það lítur út að endingu þá er ræðutíminn svo takmarkaður að það er ekki líklegt að hægt verði að ræða það neitt til hlítar.

Þetta eru óboðleg vinnubrögð fyrir löggjafarþing Íslendinga. Við erum ekki bara að skrifa einhverjar pólitískar yfirlýsingar hérna, við erum ekki að skrifa ályktanir, við erum að skrifa landslög, við erum að skrifa lög, við erum að semja og samþykkja lög sem gilda í landinu og hægt er að framfylgja með yfirvaldi. Þetta er alvarlegt mál. Það er alveg ljóst að þessi vinnubrögð geta ekki með nokkrum hætti samræmst hlutverki Alþingis og þar með væntanlega ekki stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.