153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það gerist ekki oft að mál séu kölluð til nefndar meðan á 2. umr. stendur og reyndar er það ekki oft sem þau fara á milli 2. og 3. umr. heldur. En ég man ekki eftir mörgum dæmum þess að áður en umfjöllun fyrir 2. umr. í nefnd var lokið, eins og upplýsist hér hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, að strax á þeim tímapunkti hafi verið talað um að ágallar á afgreiðslu meiri hlutans hafi verið það veigamiklir að það þyrfti strax þá að ákveða að taka málið inn. (Gripið fram í.) Í fyrstu ræðu hv. þm. Jódísar Skúladóttir hér við 2. umr. málsins var þetta ítrekað, að meiri hlutanum þætti ástæða til að bregðast betur við umsögnum sem hann brást ekki nógu vel við fyrir 2. umr. Það á að kalla þetta mál til nefndar áður en við ljúkum 2. umr., ekki út af öllum þessum umsögnum eða út af því að mér finnst þetta eða neitt svoleiðis, heldur bara vegna þess að meiri hlutinn sjálfur viðurkennir (Forseti hringir.) að málið sé vanreifað. Þau skiluðu því ekki tilbúnu til 2. umr. (Forseti hringir.) Það á að senda það heim aftur, láta þau klára vinnuna. Svo geta þau komið með nefndarálit og breytingartillögur sem við getum rætt á efnislegum grunni.