Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:16]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er reyndar á þeirri skoðun almennt að það sé hlutverk okkar þingmanna að betrumbæta lagasetningu, hversu slæm sem hún kann að vera. Við eigum að gera okkar besta til þess að laga slæma lagasetningu, hvort sem það er að senda það aftur inn í ráðuneytið og óska eftir því eða að koma fram með róttækar breytingartillögur sem verða samþykktar eða ekki, en verða vonandi samþykktar hér. Auðvitað erum við í lýðræðislegu samfélagi þar sem meiri hlutinn og minni hlutinn stangast á og þegar minni hlutinn leggur fram breytingartillögur, hversu góðar sem þær kunna að vera, er afar sjaldgæft að meiri hlutinn taki tillit til þeirra.

Í breytingartillögu 1. minni hluta hjá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur er lagt til að 6. og 8. gr. lagafrumvarpsins falli brott. Ég tek undir það. Ég held að þær tvær greinar þurfi að fella brott. Síðan er líka tekist á um a-lið 17. gr. og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hefur lagt fram breytingartillögu um orðalag þar. Ég skil vel sjónarmið hv. þingmanns um að það sé einfaldlega (Forseti hringir.) erfitt að velja hvað eigi að gera til að betrumbæta slæma lagasetningu. En ég held samt (Forseti hringir.) að það sé ábyrgðarhluti okkar þingmanna að koma fram með breytingartillögur til þess að stuðla að betri lagasetningu, til að gera lögin betri, hvernig sem það er. Við getum staðið hér (Forseti hringir.) og viðrað skoðanir okkar en við þurfum líka að leggja fram tillögur til þess að bæta löggjöfina í landinu. Það er okkar ábyrgðarhluti.