Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég hef verið að fara yfir athugasemdir Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands við þetta frumvarp og þau atriði í frumvarpinu sem við erum sammála stofnuninni um að gætu stangast á við stjórnarskrá Íslands. Nú lærði ég lögfræði í Þýskalandi og í Hollandi og þar er mjög rík réttarríkishefð. Þar er að finna mjög ríka sögu réttarríkisins og mjög sterka trú á réttarríkið og að kerfið verji réttarríkið mjög vel og lögmenn geri það líka. Mín upplifun á Íslandi hefur einhvern veginn verið að þó að stjórnarskráin eigi að heita æðstu lög í landinu þá sé ekkert endilega verið að spá of mikið í hana. Við vitum náttúrlega að það er búið að neita þjóðinni um stjórnarskrá, sem hún þó samþykkti með auknum meiri hluta að skyldi verða að nýrri stjórnarskrá, en meira að segja gildandi stjórnarskrá, mér hefur oft fundist eins og hún sé bara eins og hver önnur lög í huga mjög margra, bæði lögfræðinga og meðlima löggjafans en sérstaklega framkvæmdarvaldsins sem virðast einhvern veginn líta á það sem sitt hlutverk að fara bara með hana eins og þeim sýnist. Það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni fyrir réttarríkið.

Hér erum við með ítarlega, vel rökstudda umsögn frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands sem færir góð og gild rök fyrir því hversu mörg atriði í þessu frumvarpi gætu stangast á við stjórnarskrá og gagnrýnir að ekki hafi farið fram, eins og skylda framkvæmdarvaldsins segir fyrir um, mat á því hvort þetta frumvarp standist yfir höfuð stjórnarskrá. Það er ekki einu sinni hlustað, það er bara látið eins og við í Pírötum, sem erum að benda á þetta, séum einhverjir óþekkir krakkar. Það var a.m.k. upplifun mín við ræðu hæstv. fjármálaráðherra hérna áðan sem var alveg brjálaður yfir því að við værum að kalla eftir vitrænni umræðu um þetta mál, að stjórnarliðar tækju þátt í umræðunni, að þeir svöruðu fyrir þessi margvíslegu stjórnarskrárbrot sem við höfum áhyggjur af að þetta frumvarp hafi í för með sér. Svarið er bara: Við erum í meiri hluta þannig að við þurfum ekkert að pæla í þessu — eða hvað?

Við óskuðum eftir að gerð yrði óháð úttekt á því hvort þetta mál stæðist stjórnarskrá og því var neitað. Því hefur verið neitað endurtekið af þessum stjórnarmeirihluta að fá óháða úttekt frá sjálfstæðum aðila um hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá. Þetta eru bara lágmarksfaglegheit, þetta er bara lágmarkskrafa. En nei, þrátt fyrir að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands segi í umsögn sinni að það sé óhjákvæmilegt — það þýðir að það verði ekki komist hjá því, að það verði að gera eitthvað — að löggjafinn taki skýra afstöðu, að undangengnu efnislegu mati, til þess hvort skilyrðum stjórnarskrár sé fullnægt, þá gerir meiri hlutinn bara ekkert slíkt en rövlar í fjölmiðlum um að við séum farin að tefja önnur mál. Þau vilja að flýta sér svo mikið að afgreiða möguleg stjórnarskrárbrot að þau eru farin að væla yfir því að við séum að tefja önnur mál með því að benda þeim á að þau séu mögulega að brjóta gegn stjórnarskránni. Hvernig væri að kalla málið inn í nefnd og fá þetta óháða mat og fá þá úr þessu skorið? Þá þurfum við ekki að tefja nokkurn skapaðan hlut.